Þingflokkur Samfylkingarinnar vill að umhverfisráðherra banni plastpokanotkun í verslunum og geri innflytjendum og framleiðendum skylt að merkja vörur sem hafa í sér plastagnir.
Guðmundur Andri Thorsson þingmaður Samfylkingarinnar er flutningsmaður þingsályktunartillögu þessa efnis. Þar kemur fram í greinargerð að bann við notkun plastpoka í verslunum sé vel til þess fallið að draga úr notkun plasts og vekja athygli á þeim brýna vanda sem steðji að lífríki hafsins vegna plasts.
„Merkingar á vörum sem nota plastagnir hjálpa neytendum að sniðganga slíkan varning en velja frekar umhverfisvænar vörur og skapa þannig þrýsting á framleiðendur og innflytjendur að hugsa sinn gang í þessum efnum.“
Árið 2015 samþykkti Alþingi að tillögu Oddnýjar G. Harðardóttur og fleiri þingmanna úr öllum flokkum sem þá voru á þingi þingsályktun um að draga úr plastpokanotkun Þar var ráðherra falið að leita leiða til þess að draga úr plastpokanotkun hér á landi. Í kjölfarið var tollalögum breytt og upplýsingum safnað um umfang plastpokanotkunar hér á landi.
Árið 2016 var undirritaður samningur milli Samtaka verslunar og þjónustu og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins um að draga úr notkun plastpoka. Þessi samningur var ekki endurnýjaður árið 2017. Fyrir utan almennar hvatningar frá opinberum aðilum og einstökum verslunum hefur lítið verið aðhafst í þessu máli, að því er fram kemur í svari umhverfisráðherra við fyrirspurn Oddnýjar G. Harðardóttur um minnkun plastpokanotkunar frá 5. mars.
„Að undanförnu hefur átt sér stað vitundarvakning meðal almennings varðandi hreinsun strandlengjunnar og hefur til að mynda Blái herinn gengið myndarlega fram fyrir skjöldu þar. Sjálfboðaliðar hafa unnið að því að hreinsa strendur landsins og í verslunum ber æ meira á því að boðið sé upp á margnota taupoka í stað einnota plastpoka. Þetta er mjög jákvæð þróun en betur má þó ef duga skal í þessum efnum. Ekki hefur gengið vel að koma á samráðsvettvangi stjórnvalda og samtaka verslunarinnar um markvissar aðgerðir við að draga úr notkun plasts. Það er vissulega verðugt verkefni að hreinsa strendur landsins, en það er þó enn mikilvægara að koma í veg fyrir að plastið lendi yfirleitt í sjónum. Áhrifaríkasta leiðin til þess er að draga úr notkun einnota plasts á borð við plastpoka í verslunum,“ segir í greinargerðinni.
Plastið nú þegar bannað víða um heim
Þegar er notkun einnota plastpoka í verslunum bönnuð í einstökum löndum. Stjórnvöld í Bangladess riðu á vaðið árið 2002. Í Kína var bann við framleiðslu og notkun þynnstu plastpokanna leitt í lög árið 2008 ásamt því að ókeypis plastpokar af öllu tagi í verslunum voru bannaðir. Stjórnvöld í Kína hafa frá og með árinu 2018 ákveðið að banna innflutning á plasti til endurvinnslu en árum saman hafa lönd heimsins flutt milljónir tonna af slíku plasti til Kína og Hong Kong. Þetta er talið hafa mikil áhrif á endurvinnslu í heiminum, t.d. þannig að það muni draga úr söfnun og endurvinnslu á ákveðnum tegundum plasts og auka þannig plastmengun. Ítalir settu bann við notkun plastpoka í verslunum árið 2012, Frakkar gerðu hið sama árið 2016 og hafa um hríð verið í fararbroddi við að banna einnota plast og verða bollar, diskar og hnífapör úr einnota plasti bönnuð frá janúar árið 2020. Frá þeim tíma verður einnota borðbúnaður að vera gerður úr minnst 50% lífrænum efnum, sem hægt er að endurvinna á heimilum, og 60% árið 2025. Spænsku eyjarnar Mallorca, Menorca, Ibiza og Formentera hafa ákveðið að skoða bann sem taki gildi árið 2020 við sölu á ýmsum neysluvörum úr einnota plasti (svo sem borðbúnaði, rörum, einnota rakvélum, kveikjurum og kaffihylkjum). Einnig er til umræðu að krefja veitingastaði og bari um að bjóða viðskiptavinum ókeypis vatn í glösum til að minnka plastflöskunotkun. Ýmis Afríkuríki hafa samþykkt eða innleitt bann við notkun plastpoka. Kenía innleiddi til að mynda bann við notkun plastpoka árið 2017 og Rúanda bannaði innflutning og notkun þunnra plastpoka árið 2004 og bann við öllum plastpokum tók gildi árið 2008. Loks má nefna Kaliforníuríki í Bandaríkjunum þar sem innleitt var bann við einnota plastpokum í verslunum árið 2014 en bannið tók þó ekki gildi fyrr en í nóvember 2016.
„Óskandi væri að Ísland yrði í fararbroddi þjóða heims í þessari baráttu,“ segir að lokum í greinargerð þingmannanna.