„Mér finnst það svo hlægilegt, ég ætla að leyfa mér að segja það. Til höfuðs hverjum er það, Degi B. Eggertssyni? Svo vitum við ekkert hverjir eru á bak við þetta. Eins og þetta er akkurat núna þá er þetta hlægileg hugmynd,“ segir Karen Kjartansdóttir almannatengill um sérstakt kvennaframboð sem kynnt var síðastliðinn sunnudag.
Karen er gestur sjónvarpsþáttar Kjarnans, ásamt Andrési Jónssyni almannatengli, sem frumsýndur er á Hringbraut í kvöld klukkan 21. Hægt er að horfa á stiklu úr þætti kvöldsins í spilaranum hér að ofan.
Andrés telur að það fari eftir því hverjir verða í framboði fyrir flokkinn og hversu sterkir frambjóðendurnir verða. Hugsanlega komi fram einstaklingar sem eiga gott með að ná athygli í umræðunni en hann bendir jafnframt á að sterk femínísk bylgja sé í samfélaginu um þessar mundir. Fólk sé hugsanlega tilbúið að kjósa einhvern sem fer fram með sterkar hugmyndir, sérstaklega ef sá aðili yrði í sama meirihluta og það myndi annars kjósa.
Karen telur aftur á móti að femínískar áherslur tengist ekki alltaf kyninu jafn sterkt. Hægt sé að hitta konur sem séu einstaklega mikið með feðraveldinu. „Ég finn oft fyrir því hjá sjálfri mér. Maður þarf að skoða hug sinn mjög mikið. Ég held að sterkasta röddin fyrir femínisma í stjórnmálum undanfarið hafi verið Þorsteinn Víglundsson,“ segir hún. Þannig hafnar hún þessum hugmyndum um femínískt framboð í borginni.