Til að mæta ófremdarástandi í 9. bekk Austurbæjarskóla, þar sem nokkrir drengir, með ólátum og stælum, skildu lítið rými eftir fyrir stelpurnar, hafa bekkjarsystur þeirra myndað hljómsveit með hjálp Brynhildar Karlsdóttur. Hún ákvað að nota tækifærið sem fólst í þessu ástandi og vinna verkefni sem snýr að því að valdefla stelpurnar.
Í kvöld munu fjórar 14 ára stelpur koma fram í húsi Listaháskóla Íslands að Sölvhólsgötu. Sýningin er lokaverkefni Brynhildar Karlsdóttur nema á öðru ári við skólann. Að verkefninu vinnur Brynhildur með yngri systur sinni, Álfheiði og bekkjasystrum hennar úr 9. bekk við Austurbæjarskóla.
Kveikjan að sýningunni er ástand sem myndaðist í bekknum hennar Álfheiðar. Móðir Brynhildar og Álfheiðar, Ásdís Olsen, segir frá ástandinu í skóla dóttir sinnar á Facebook. „Í byrjun vetrar spurðist út að ófremdarástand ríkti í bekknum og hefði gert í langan tíma, að nemendur væru með síma í tímum og að nokkrir drengir væru með ólæti og stæla, að andrúmsloftið væri þrúgandi, að kennarar mættu bekknum með kvíða og kreppta hnefa og að megnið af kennslustundum færi í að tjónka við drengina. Stelpurnar, sem eru aðeins 7 í þessum bekk, hafa vanist því að taka lítið pláss og fá litla athygli.“
Á öðru ári í Listaháskólanum þurfa nemendur að skila einstaklingsverkefni og ákvað Brynhildur að vinna verkefnið með systur sinni. Systurnar töluðu saman um ástandið í bekknum og varð svo úr að þær buðu bekkjarsystrum Álfhildar að vera með í verkefninu. Í samtali við Kjarnann sagði Brynhildur verkefnið snúast um að gefa fólki tækifæri til þess að hlusta á það sem 14 ára stelpur hafa að segja. Verkefnið snýst um að styrkja stúlkurnar og var ferlið jafnvel mikilvægara heldur en lokaútkoman sjálf.
„Það er alltaf verið að bíða eftir að þetta ástand verði lagað en svo gerist það bara ekki.“ segir Brynhildur. Ástandið bitnar á stelpunum sem langar að vera læra í skólanum og hafa gaman. Verkið vann hún með stelpunum í gegnum samtöl og ýmsar æfingar. Brynhildur segir stelpurnar vera mikla femínista með sterka pólitíska rétthugsun, en að það fái ekki rými í þeirra nærumhverfi.
„Það sem virðist gerast á unglingsárunum er að strákarnir taka vandamálin sín út og fá einhverja útrás. En stelpur fara einhvernvegin inn í sig. Frá mínum bæjardyrum séð verður skaðinn annar hjá þeim því þær fá ekki að tjá tilfinningarnar sínar og fá ekki að standa upp fyrir því sem þær trúa.“
Þær ræddu vandamálið og komu með hugmyndir um hvernig væri hægt að leysa það en markmiðið snýr að því hvernig er hægt að styrkja stúlkurnar. „Við byrjuðum að tala mikið um vandamálið og femínisma. Við lásum bók um uppreisnar konur og horfðum á heimildarmyndir. Síðan fórum við í hópeflingarleiki og karókí og vorum að reyna að koma þeim út úr kassanum.“ segir Brynhildur. Hún prófaði að fara með þær upp í hljómsveitarhúsnæði og leyfði þeim að prófa sig áfram með hljóðfærin. „Þá einhvernvegin bara gerðist einhver snilld. Þegar þær voru með rafmagnsgítar og míkrafón þá fóru þær allt í einu að segja eitthvað sem ég hefði ekki getað togað út úr þeim á annan hátt.“ segir Brynhildur.
„Og þá fannst mér þetta vera svo brilljant að úr þessu verkefni yrði bara pönkhljómsveit og það yrði einhvern veginn „statementið“.“ Hún segir hljómsveitina þannig hafa orðið svarið við öllum þeim spurningum sem þær hafi verið að spyrja sig. „Hvernig þær geta tekið pláss og hvernig þær geta tjáð hlutina sem þær vilja segja og hvernig þær geta staðið saman og myndað heild.“
Kvennabaráttan er í fullum gangi hér í næsta herbergi. Dætur mínar eru að láta í sér heyra. "Hlustum á 14 ára stelpur!"...
Posted by Ásdís Olsen on Wednesday, April 11, 2018