Sumardagurinn fyrsti var á fimmtudag. Dagurinn er talinn annar fimmtudagur eftir Leonisdag, sem er 11. apríl ár hver, eða með öðrum orðum, fyrsti fimmtudagur eftir þann 18. apríl. Sumardagurinn fyrsti er því aldrei fyrr en í fyrsta lagi 19. apríl og eigi síðar en 25. apríl.
Vísindavefurinn segir, að þrátt fyrir að það sé hvergi sagt berum orðum í lögum, þá hafi menn virst hafa litið á fyrsta dag sumars sem upphaf ársins. Það sjáist á því að aldur manna var jafnan talinn í vetrum og því hafi dagurinn verið haldinn hátíðlegur.
Sumargjafir voru gefnar að minnsta kosti fjórum öldum áður en jólagjafir fóru að tíðkast. Þá var haldin matarviesla sem þótti ganga næst jólunum. Fyrsti dagur sumars var líka frídagur frá vinnu og börn fengu að fara á milli bæja til að leika sér við nágranna. Þá var hann einnig helgaður ungum stúlkum og nefndur yngismeyjadagur. Piltar máttu þá gefa í skyn hverja þeim leist á. Þetta var sambærilegt við bóndadaginn og konudaginn á fyrsta degi þorra og góu.
Á Vísindavefnum kemur fram að dagurinn sé hluti af misseristalinu sem tíðkast hafi hér á landi frá landnámi. „Árinu er þar skipt í tvo nærri jafnlanga helminga: Sumarhelming og vetrarhelming. Þó svalt sé oft í veðri á þessum árstíma er dagurinn vel valinn af forfeðrunum því sumarið ‒ frá sumardeginum fyrsta og til fyrsta vetrardags á haustin ‒ er einmitt hlýrri helmingur ársins, en veturinn sá kaldari. Sömuleiðis verða á þessum tíma árviss fjörbrot vetrarins í háloftunum yfir landinu og sumarið tekur við, þá dregur að jafnaði mjög úr afli veðurkerfa.“
Áður en rómverska tímatalið barst hingað með kirkjunni höfðu Íslendingar komið sér upp eigin tímatali sem ekki virðist hafa verið til annars staðar. Sennilega hefur Íslendingum þótt nauðsynlegt að hafa eitthvert sameiginlegt tímaviðmið eftir að þeir settu sér eigin samfélagsreglur með stofnun Alþingis snemma á 10. öld. Rómverska tímatalið varð virkt eftir að föst skipan komst á kirkjuna með stofnun biskupsstóls eftir miðja 11. öld. Íslendingar köstuðu samt gamla tímatalinu ekki fyrir róða heldur löguðu það til svo að það lifði góðu lífi við hlið hins kirkjulega tímatals og gerir enn í vönduðum almanökum.