Brugghúsið BrewDog mun opna á Íslandi snemma í sumar á horni Frakkastígs og Hverfisgötu. BrewDog er skoskt handverksbrugghús sem bruggar og selur gæðabjór. Þórhallur Viðarsson er framkvæmdarstjóri BrewDog Reykjavík og segir hann að það hafi staðið til í nokkurn tíma að fá BrewDog til Íslands.
„Það er nokkuð síðan að BrewDog gaf það út opinberlega að þeir hefðu augastað á að opna bar á Íslandi.“ segir Þórhallur. Að komu BrewDog til Íslands standa Þórhallur, Eyþór Mar Haraldsson, matreiðslumaður og Róbert Ólafsson eigandi Forréttabarsins.
„Það voru nokkrir búnir að hafa þetta á teikniborðinu í nokkurn tíma, ég kem svo inn í ferlið í byrjun febrúar.” segir Þórhallur. Ásamt þeim Þórhalli, Eyþóri og Róberti standa fjárfestar og bjóráhugamenn að opnuninni.
Also coming soon - Paris, Reykjavik, and Barcelona Airport....
— BrewDog (@BrewDog) April 7, 2018
(oh, and Inverurie!)#PunkAGM2018
Mikil áhersla lögð á bjór og mat
Staðurinn verður ekki aðeins bar heldur einnig veitingahús. „Það er verður lögð mikil áhersla á bjór og mat, og pörun þar á milli.“ segir Þórhallur. Þeir stefna á að vera með ívið stærri og flottari veitingastað en tíðkast á börum BrewDog í öðrum löndum.
„Við setjum stefnuna hærra hvað varðar mat og úrval og verðum með bæði kjöt, fisk, grænmetisrétti og veganrétti.“ segir Þórhallur.
Á BrewDog verða 20 bjórar á krana en stefnt verður að því að hafa 40 prósent af þeim krönum undir gestabjóra, eða bjóra sem ekki eru bruggaðir af BrewDog. Þórhallur segir að hluti af þeim verði fyrir íslenska bjóra en mikil gróska hefur verið í bruggmenningu hér á landi síðastliðin ár.
„Við viljum setja fókusinn á öll þessi litlu brugghús sem eru ekki kominn á þann stað að hafa mikla dreifingu.“ segir Þórhallur. Mikil velta verður á bjórúrvalinu segir Þórhallur og þó fólk komi í hverri viku eigi að vera eitthvað nýtt í boði hverju sinni.
BrewDog á og rekur 46 bari víðsvegar um heiminn og á árinu 2017 brugguðu þau yfir 343 þúsund hektólítra af bjór. Fyrirtækið bruggar bjórinn ekki aðeins í Skotlandi þar sem höfuðstöðvarnar eru í Ellon, heldur hófst framleiðsla í Ohio í Bandaríkjunum á árinu 2017. Þeir Watt og Dickle stefna á að opna einnig verksmiðju í Ástralíu á næstu misserum.