Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu, og Moon Jae-In, forseti Suður-Kóreu, hittust við landamæri ríkjanna í nótt og varð Kim fyrsti leiðtogi Norður-Kóreu til að stíga inn á landsvæði Suður-Kóreu síðan Kóreustríðinu lauk árið 1953.
Fundarhöld leiðtoganna og aðstoðarmanna þeirra fara fram í Friðarhúsinu í Panmunjom.
Kim Jong-Un var brosmildur þegar hann tók í hönd Jae-In en samkvæmt umfjöllun BBC er hinn umdeildi og óútreiknanlegi Jong-Un sagður vilja beita sér fyrir betri samskiptum ríkjanna og sameinuðum Kóreuskaga.
Suður-Kóreumenn hafa beitt sér fyrir betri samskiptum ríkjanna allt frá því að Norður-Kórea samþykkti að senda íþróttafólk til keppni á vetrarólympíuleikunum í Suður-Kóreu fyrr á árinu.
Alþjóðalegar refsiaðgerðir eru enn í gildi gagnvart Norður-Kóreu, vegna tilrauna með langdrægar flaugar. Meðal efnahagsþvingana eru hindranir á olíuinnflutningi til landsins, og hafa þær þegar haft alvarlegar afleiðingar fyrir landsmenn. Íbúar á Kóreuskaga eru um 75 milljónir. Um 50 milljónir í Suður-Kóreu og 25 milljónir í Norður-Kóreu.