Fjölmiðilinn Stundin og þingflokkur Pírata hafa slegið því upp að ég sé kunningi Braga Guðbrandssonar forstjóra Barnaverndarstofu og að hann hafi vegna þess kunningsskapar haft einhvern óeðlileg afskipti af barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar og meðferð þess á máli um umgengni sonardætra minna.
Hið rétta er hins vegar að barnaverndaryfirvöld hafa aldrei tálmað eða takmarkað umgengni sonar míns við dætur sínar, hvorki á grundvelli meints gruns um kynferðisbrot eða af öðrum ástæðum. Það var þannig aldrei möguleiki að neinn maður, kunningi minn eða ekki, gæti haft áhrif á ákvarðanatöku þeirra um slíka hluti, þar sem barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar hefur ekki að mér vitandi haft til meðferðar mál þar sem tekin var ákvörðun um umgengni sonar míns við dætur sínar.
Vegna ásakanna sem stafa frá barnsmóður sonar míns og fjölskyldu hennar hefur barnaverndarnefnd óskað eftir rannsókn lögreglu og Barnahúss. Slík rannsókn fór fram og bendir ekkert til að sonur minn hafi brotið gegn dætrum sínum eða nokkrum öðrum. Ef talið væru einhverjar líkur á því að börnum stæði hætta af honum hafa barnaverndaryfirvöld allar valdheimildir til að takmarka umgengni hans við dætur sínar eða láta það fara fram undir eftirliti. Það hafa þau ekki gert, enda ítarlegar rannsóknir aldrei gefið tilefni til þess.
Ég leitaði til Barnaverndarstofu með formlega kvörtun um starfshætti barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar, þar sem barnsmóðir sonar míns hélt því fram að hún gæti ekki staðið við umgengnissamkomulag vegna þess að barnaverndarnefnd heimilaði ekki umgengni. Hvorki, sonur minn, lögmaður hans né ég gátu fengið svör frá barnaverndarnefnd um hvaðan þessi fullyrðing væri komin og hvort í gangi væri eitthvað mál sem gæti staðið í vegi fyrir umgengni.
Þetta gerði ég þar sem eiginkona mín var þá dauðvona og þráði það að geta hitt barnabörn sín síðustu jólin sem hún lifði. Ég hafði samband við alla yfirmenn sem mér hugkvæmdust hjá stofnunum barnaverndaryfirvalda og reyndi að fá svör. Þá óskaði ég eftir því að þeir beittu sér til að hafa milligöngu við barnsmóður sonar míns og fá hana með einhverjum hætti til að leyfa ömmu barnanna að kveðja þær.
Ég er ekki ‚kunningi‘ Braga Guðbrandssonar og hann hefur að mér vitandi aldrei gengið minna erinda. Af faglegum ástæðum hef ég haft samskipti við hann á árum áður, þegar ég starfaði við barnavernd, en það eru sennilega yfir þrjátíu ár síðan ég hafði slík samskipti við hann. Ég hef hitt Braga einu sinni á ævinni, einhvern tíman á árunum 1981-1986, þegar ég var formaður barnaverndarnefndar og hann starfaði hjá Kópavogsbæ. Það er allur kunningsskapur okkar.
Ég bið vinsamlegast fjölmiðla, þingmenn og almenning að leyfa ekki heift og óbilgirni að særa fleiri. Hættið að nota saklaus börn sem skotfæri í ljótum leik stjórnmála- og embættismanna. Hversu mikilvægt sem þið teljið það að koma höggi á andstæðing, munið að það er raunverulegt fólk á bak við trúnaðargögnin sem þið fenguð einhvern til að leka. Og að sá sem lekur trúnaðargögnum velur hverju er lekið úr samhengi og hvaða ósannindum er hvíslað með.
Höfundur er prestur og fyrrum formaður barnaverndarnefndar.