Íslenska ríkinu hefur verið gert að greiða Hreiðari Má Sigurðssyni fyrrverandi forstjóra Kaupþings 300 þúsund krónur í miskabætur auk dráttarvaxta vegna hlerana sem fram fóru á síma hans samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp í dag.
Hreiðar höfðaði einkamál gegn ríkinu vegna ólögmætra hlerana og óréttlátrar málsmeðferðar og fór hann fram á 10 milljónir í bætur.
Hreiðar byggði kröfu sína á nokkrum málsástæðum. Í fyrsta lagi á því að úrskurðirnir hafi verið kveðnir upp á röngu varnarþingi. Í öðru lagi á því að úrskurður hafi verið kveðinn upp á heimili dómara og án þess að skrifleg beiðni lægi fyrir. Í þriðja lagi á því að efnisleg skilyrði símahlustunar hafi ekki verið uppfyllt þegar heimildir hafi verið veittar á grundvelli óskýrra lagaheimilda. Í fjórða lagi á því að með úrskurðunum og eftirfarandi hlustunum hafi að engu verið hafður réttur stefnanda sem sakbornings til að neita að tjá sig um sakarefni. Loks byggði hann á því að hlustað hafi verið á og ekki eytt jafnharðan samtölum sem hann hafi átt við verjanda sinn.
Í niðurstöðu dómsins kemur fram að símhlustun lögreglu sem hófst skömmu eftir að Hreiðari hafði verið kynnt réttarstaða sakbornings við yfirheyrslu vegna þeirra brota sem lágu símhlustuninni til grundvallar hafi brotið gegn rétti hans til réttlátrar málsmeðferðar samkvæmt stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu. Öðrum málsástæðum var hafnað.
Fallist var á kröfu ríkisins um að málskostnaður sé felldur niður.