Sænska nóbelsverðlaunaakademían tilkynnti í morgun að hún myndi ekki velja verðlaunahafa í flokki bókmennta árið 2018, þar sem brottfall úr dómnefndinni hafi verið of mikið í kjölfar kynferðisbrotaásakana. Þetta kemur fram á vef Guardian.
Þetta er í fyrsta skiptið í 75 ár sem akademían hefur hætt við verðlaunaafhendingu, en hún mun þess í stað tilkynna tvo sigurvegara á næsta ári. Ákvörðunin var birt klukkan níu í morgun á sænskum tíma eftir fundarhöld meðlima akademíunnar í gær.
Í tilkynningunni sagði að ákvörðunin hafi verið tekin „í ljósi rýrrar stöðu akademíunnar og lítils traust almennings gagnvart henni.“ Anders Olsson, ritari akademíunnar, sagði nauðsynlegt fyrir hana að taka sér tíma til þess að endurvekja almenningstraust á henni af virðingu við fyrrum og framtíðarverðlaunahafa.