Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir íslenska þjóðin verða að auka útflutningsverðmæti um einn milljarð á viku næstu tuttugu árin, vilji hún halda uppi sömu lífskjörum. Þetta sagði Guðlaugur í samtali við útvarpsstöðina K100 í morgun, en mbl.is greinir fyrst frá.
Í viðtalinu talar Guðlaugur um alþjóðaviðskipti, en hann telur það vera afar mikilvægt að ekki verði til neinar viðskiptahindranir í Evrópu á næstu árum. Í því sambandi nefnir hann úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu og fullyrðir jafnframt að í henni liggja ýmis tækifæri.
Samkvæmt honum er óljóst hvort Ísland muni semja sjálft um fríverslunarsamning við Bretland eða með EFTA-ríkjunum, en öll viðbrögðin sem hann hafi fengið frá breskum stjórnvöldum hafi verið jákvæð.
Guðlaugur lýsti einnig yfir áhyggjum yfir stöðu EES-samningsins, en hann óttaðist að grafið sé undan honum. Sem aðgerð gegn þeirri þróun sagði ráðherrann ríkisstjórnina hafa aukið fjárútlát vegna hagsmunagæslu Íslands í EES um 200 milljónir króna.
Einnig minntist Guðlaugur á viðskipti utan Evrópu, en hann sagði Íslendinga þurfa að hafa aðgang að nýjum mörkuðum sem væru að myndast samhliða rísandi millistéttum um allan heim. Aukin viðskipti við nýja markaði væru nauðsynleg, því Íslendingar þyrftu að auka útflutning sinn verulega til þess að halda í sömu lífskjör og við búum nú við:
„Ef við Íslendingar ætlum að halda uppi okkar lífskjörum eins og við viljum sjá, verðum við að auka útflutningsverðmæti okkar um einn milljarð á viku næstu tuttugu árin.“