ESA ætlar að stefna Noregi fyrir EFTA dómstólinn vegna brota á jafnræðisreglu þegar kemur að feðraorlofi. ESA, sem er eftirlitsstofnun EFTA, telur norsku fæðingarorlofsreglurnar mismuna eftir kyni og vill fá úr um það skorið hvort koma megi öðruvísi fram við konur og karla þegar kemru að reglusetningu um fæðingarorlof.
Reglur um fæðingarorlof í Noregi er með þeim hætti að báðir foreldrar eiga rétt á tíu vikna launuðu orlofi. Því til viðbótar gilda þar áþekkar reglur og á Íslandi, að foreldrarnir geti skipt á milli sín orlofi umfram þessar tíu vikur. Þar gilda hins vegar takmarkanir á orlofstöku feðra sem ekki gilda um mæður. Þannig markast réttur föðurs af stöðu móður á vinnumarkaði, það er að segja faðirinn á aðeins rétt á umfram orlofinu ef móðirin er í vinnu eða námi.
Í yfirlýsingu frá ESA segir að jafnræði sé meginþáttur í löggjöf evrópska efnahagssvæðisins. „Þegar norsk yfirvöld kerfisbundið og með ólögmætum hætti koma öðruvísi fram við konur og karla er það hlutverk ESA að draga þá til ábyrgðar,“ er haft eftir Bente Angell-Hansen forseta ESA.
Angell-Hansen segir að evrópureglur skyldi Noreg ekki til að bjóða upp á fæðingarorlof. Ákveði ríki hins vegar að bjóða upp á slíkt verður það að vera gert á jafnréttisgrundvelli.
Norsk yfirvöld hafa haft töluvert af tækifærum til að tjá sig um málið og hafa lagt þá línu að þau telji ekki að Evrópu-reglurnar eigi við í þessu tilfelli. Sé hins vegar talið að reglurnar gildi um norska fæðingarorlofs fyrirkomulagið telja stjórnvöld að um sé að ræða jákvæða mismunun sem tryggi að konur taki þátt á vinnumarkaði.
Nú verður það hlutverk EFTA dómstólsins að útkljá málið.