Í lok árs 2017 voru konur 26,1 prósent stjórnarmanna fyrirtækja sem greiða laun og skráð eru í hlutafélagaskrá. Hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja var á bilinu 21,3 prósent til 22,3 prósent á árunum 1999 til 2006, hækkaði svo í 25,5 prósent árið 2014 og hefur verið um 26 prósent síðustu þrjú ár.
Þetta kemur fram í frétt Hagstofunnar í dag.
Árið 2017 voru konur 32,6 prósent stjórnarmanna í fyrirtækjum með 50 launþega eða fleiri, líkt og árin tvö þar á undan. Til samanburðar var hlutfall þeirra í stjórnum stórra fyrirtækja 12,7 prósent árið 2007 og 9,5 prósent árið 1999, segir í fréttinni.
Karlar stýra fjármagni á Íslandi
Í úttekt Kjarnans frá febrúar síðastliðnum kemur fram að karlar sitji nánast einir að stýringu fjármagns á Íslandi.
Af 90 æðstu stjórnendum viðskiptabanka, sparisjóða, lífeyrissjóða, skráðra félaga, óskráðra tryggingafélaga, lánafyrirtækja, verðbréfafyrirtækja og -miðlana, framtakssjóða, orkufyrirtækja, greiðslustofnana, Kauphallar og lánasjóða eru 81 karlar og níu konur. Ofangreindur hópur stýrir þúsundum milljarða króna.
Lögin hafa ekki skilað tilteknum árangri
Lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja tóku að fullu gildi hér á landi í september 2013 og samkvæmt þeim ber fyrirtækjum með 50 eða fleiri starfsmenn að tryggja að hlutfall hvors kyns í stjórn sé ekki undir 40 prósentum. Árið eftir það náði hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja af þessari stærð hámarki, fór upp í 33,2 prósent, en hefur síðan farið lækkandi aftur. Í árslok 2016 var hlutfallið til að mynda 32,3 prósent.
Það er því ljóst að setning þeirra laga hefur ekki skilað þeim árangri sem vænst var. Og úttekt Kjarnans sýnir svart á hvítu að fjölgun kvenna í stjórnum stærri fyrirtækja hefur ekki skipt neinu máli varðandi fjölgun í lykilstöður í fjármálageiranum.
Hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja með færri en 50 launþega stendur nánast í stað milli ára í 25,7 prósentum, samkvæmt Hagstofunni.
Hlutfall kvenna í stöðu framkvæmdastjóra stendur jafnframt í stað milli ára, eða í 22,1 prósentum, en samkvæmt Hagstofunni frá 1999 varð hægfara aukning fram til ársins 2016. Hlutfall kvenna í stöðu stjórnarformanna var 23,9 prósent í lok árs 2017, sem er það sama og árið 2016.