Bandarísku forsetahjónin fyrrverandi, Michelle og Barack Obama, hafa samið við efnisveituna Netflix um að framleiða sjónvarpsefni fyrir efnisveituna næstu árin, og eru kvikmyndir, þættir og heimildarmyndir þar á meðal.
Frá þessu greindi Netflix í dag, en efnisveitan er nú komin með 125 milljónir borgandi áskrifenda um allan heim og fjölgar þeim stöðugt.
Barack Obama segir í tilkynningu að hann vonist til þess að framleiðsla þeirra muni veita fólki innblástur og verði til þess að auka samfélagslegan áhuga fólks og gefa hæfileikafólki úr öllum áttum möguleika á að láta til sín taka.
Markaðsvirði Netflix, sem er með höfuðstöðvar í Kaliforníu, hefur vaxið með ævintýralegum hætti á undanförnum árum. Verðmiðinn á fyrirtækinu eru nú kominn í 143 milljarða Bandaríkjdala, eða sem nemur um 15 þúsund milljörðum króna. Það er upphæð sem nemur um átjánföldu virði íslenska hlutabréfamarkaðarins í heild sinni.
Barack Obama hefur oft látið hafa eftir sér, að honum finnist fátt skemmtilegra en að horfa á góða mynd eða góða sjónvarpsþætti. Þannig hefur hann meðal annars hrósað David Simon, höfundi The Wire þáttana, fyrir að setja fram áleitnar spurningar um samfélagið í þáttum sínum og draga fram mikilvæg mál fram í dagsljósið, með listsköpun sinni.
Obama hjónin hafa stofnað félagið Higher Ground Productions sem mun framleiða efnið fyrir Netflix.