Yfirkjörstjórn Reykjavíkur sakar Sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu, Þórólf Halldórsson, um mistök við meðferð kæru sem barst vegna væntanlegra borgarstjórnarkosninga. Kemur þetta fram í bréfi yfirkjörstjórnar til sýslumanns.
RÚV greindi frá þessu í gærkvöldi, og er bréfið birt á vef RÚV.
Forsaga málsins er sú, að Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í Reykjavík, sendi in kæru til sýslumanns 8. maí, þar sem fundið er að því að Frelsisflokkurinn hafi fengið listabókstafnum Þ úthlutað. Stafurinn var áður listabókstafur Pírata, en þeir skiptu yfir í P fyrir kosningarnar 2016.
Í umfjöllun RÚV segir að Dóra Björt hafi fundið að þessu, meðal annars þar sem þetta gæti valdið ruglingi og leitt til þess að fólk myndi greiða röngum flokki atkvæði sitt.
Þá segir enn fremur í umfjöllun RÚV að sýslumaður hafi skipað nefnd þriggja lögmanna til að fjalla um kæruna, eins og kveðið er á um í lögum um kosningar til sveitarstjórna. Tveimur dögum síðar, 11. maí, óskaði nefndin eftir umsögn yfirkjörstjórnarinnar í Reykjavík sem svaraði með bréfi 16. maí.
Telur yfirkjörstjórnin, að skipan nefndarinnar hafi verið mistök og að ákvarðanir kjörstjórna séu ekki kæranlegar. Er vísað til dóma Hæstaréttar, og bent á að kæra þurfi framkvæmd kosninga, og þá tiltekna hluta þeirra, en ekki einstaka ákvarðanir kjörstjórna.
Í bréfinu segir meðal annars: „Með vísan til alls þess sem greinir að framan telur yfirkjörstjórn það yfir allan vafa hafið að sýslumanni hafa orðið á mistök við meðferð kærunnar frá öndverðu.“
Þá segir enn fremur að sýslumaður hafi ekki gætt að skýrum ákvæðum laga og að honum beri að leiðrétta mistökin með því að afturkalla skipun nefndarinnar og vísa kærunni frá.