Fyrrverandi formaður Lögmannafélagsins hélt þrumuræðu á aðalfundi félagsins í gær og var afar ósáttur við gagnrýni aðstoðarmanns dómsmálaráðherra á málarekstur Vilhjálms H. Vilhjálmssonar kollega hans vegna skipan dómara við Landsrétt.
Reimar Pétursson lét af embætti sem formaður Lögmannafélagsins í gær. Nýr formaður er Berglind Svavarsdóttir en hún er önnur konan í 107 ára sögu félagsins sem gegnir embættinu.
Bakari hengdur fyrir smið
Í ræðu sinni á fundinum sagði Reimar mörg dæmi um það í heimssögunni að lögmenn þurfi að sæta árásum vegna starfa sinna. Slíkt gerist helst í ríkjum þar sem tíðkist alræði. Hann sagði við hér á landi ekki eiga því að venjast.
Reimari var samt sem áður órótt yfir þróun mála. Kunnara sé en frá þurfi að segja að dómsmálaráðherra hafi brotið lög við skipan dómara í Landsrétt. Því hafi fylgt miklir eftirmálar með tilheyrandi réttaróvissu. Í tengslum við það hafi lögmaður einn tekið að sér fyrir hönd skjólstæðings síns að láta reyna að umfang réttar skjólstæðingsins samkvæmt mannréttindasáttmála Evrópu að dómari sé skipaður í samræmi við lög. Reimar sagði þetta hefðbundið lögmannsverkefni og reyndar í þessu tilviki mikilvægt fyrir réttarkerfið í heild sinni að umfjöllun um málið verði tæmd.
Reimar sagði óhjákvæmilegt að valdhafar tjái sig málefnalega um þetta og taki afstöðu. Valdhafar geti hins vegar ekki kvartað undan lögmanninum sjálfum. „Lögmaðurinn er bara að reka málið og með því að beina spjótum að honum er bakari hengdur fyrir smið. Með því að veitast að lögmanninum eru valdhafar í raun ekki að gera annað en að grafa undan því hlutverki lögmanna í réttarkerfinu að ganga fram fyrir skjöldu til verndar mannréttindum.“
Auglýsingamennska
Hann sagði að athygli hans hefði verið vakin á skrifum aðstoðarmanns dómsmálaráðherra, Einars Hannessonar, á samfélagsmiðlum um málareksturinn.
Einar skrifar á Facebook síðu sína meðal annars að öllu þrjú dómstigin hafi hafnað málflutningi Vilhjálms H. Vilhjámssonar og yfirgnæfandi líkur séu á að niðurstaðan í Strasbourg verði sú sama og „óþarfi fyrir fjölmiðla að hjakka meira í þessu máli. Það sem mér leikur hins vegar forvitni á að vita er hver ætlar að borga málskostnaðinn af þessari auglýsingamennsku - endar hann hjá skattborgurum?“
Annars staðar skrifar Einar að hann telji að Vilhjálmur hafi aldrei átt séns vegna þess að lögin leiddu til augljósrar niðurstöðu. Þá spyr hann: „Hvers vegna ferðu í herferð sem á aldrei séns með blaðamenn og þingmenn Samfylkingarinnar í för?“
Einar blandar fréttastofu RÚV einnig í málið sem hann segir „alveg sérstaklega móttækileg fyrir röksemdum Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hvort sem um er að ræða athafnaskáld með vafasama fortíð í Suður Ameríku eða fullyrðingar um skipan Landsréttardómara sem hafnað hefur verið á öllum dómstigum.“
Á fimmtudag sagði Einar að dómur Hæstaréttar hafi staðfest það sem flestir hafi vitað, að dómarar við Landsrétt væru hæfir og óvilhallir og þeir hefðu verið skipaðir í samræmi við lög. „Nú hljóta þeir sem hafa grafið undan trú á dómskerfinu með svigurmælum sínum að hér verði allt í óvissu í mörg ár að sjá að sér.“
Valdhafar með lítinn eða engan skilning þýðingu starfa lögmanna fyrir réttarríki
Reimar segir Einar með þessu hafa lýst því svo að lögmaðurinn sjálfur sé aðili máls frekar en skjólstæðingur hans. Eins hafi hann sagt málareksturinn auglýsingamennsku og að á milli lögmannsins og RÚV sé einhvers konar vanheilagt samband og að hann virðist telja úr lögmanninum að bera fram kvörtun til Strasborgar. „Uggvænlegt er þegar sjálfstætt starfandi lögmanni eru send köld skilaboð sem þessi úr dómsmálaráðuneytinu.“
Reimar beinti á þá staðreynd að dómsmálaráðuneytið fer með æðsta stjórnsýsluvald í málefnum lögmanna og sinnir æðstu stefnumótum á sviði stjórnsýslunnar í málum þeirra. „Hér heggur því sá er hlífa skyldi. Við lögmenn megum ekki láta svona atlögur draga úr okkur í baráttunni fyrir sjálfstæði stéttarinnar,“ sagði Reimar og vildi að þær séu lögmönnum frekar hvatning.
„Svona atlögur minna einfaldlega á mikilvægi þess að allt eftirlit á störfum lögmanna fari fram á vegum okkar sjálfra en sé ekki komið fyrir í höndum valdhafa sem hafa samkvæmt þessu lítinn sem engan skilning á eðli starfa okkar og þýðingu þeirra fyrir réttarríki.“
Málið snúist ekki um persónur og leikendur
Í samtali við Kjarnann segist Vilhjálmur ekki muna missa svefn yfir þessum skoðunum dómsmálaráðherra, sem hann segir að svo virðist sem hún hafi falið aðstoðarmanni sínum að flytja. „Þó það hræði mig að tveir lögfræðingar sem báðir hafa starfað sem lögmenn skuli hafa þetta yfirgripsmikla vanþekkingu á hlutverki og störfum lögmanna. Það er líka vani þeirra sem hafa vondan málstað að verja að persónugera hlutina.“
Vilhjálmur segir þetta mál ekki snúast um persónur og leikendur. Hvorki hans eigin persónu, dómsmálaráðherra eða viðkomandi landsréttardómara. Það sé miklu stærra en svo.
„Málið varðar grundvallarspurningar um lýðræði, réttarríkið, sjálfstæði dómstóla og rétt fólks til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi fyrir dómstólum sem skipaðir eru samkvæmt lögum. Síðast en alls ekki síst varðar málið ásýnd Íslands á alþjóðavettvengi sem lýðræðisríki þar sem sjálfstæði og hlutleysi dómstóla er tryggt. Því miður færir dómur Hæstaréttar frá þeim stað sem við höfum viljað vera á til þessa, það er með Norðurlöndunum, Danmörku og Noregi, yfir í hóp með öðrum löndum sem ég ætla að láta ógert að nefna á nafn. Þess vegna þarf að láta á málið reyna í Strasbourg.“