Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, segist ekki vera sátt við árangur flokksins í sveitarstjórnarkosningum í gær. „Ég vil byrja að segja að ég er ekki sátt við þennan árangur í Reykjavík. Þegar ég gekk hérna út í gær vorum við með 7,5 prósent sem var nærri árangri okkar 2014 og 2010. Ég var ekkert ósátt við það að halda þeim árangri,“ segir hún.
Þetta kom fram í Silfrinu í morgun.
Vinstri græn fengu 4,58 prósent atkvæða í Reykjavík og einn borgarfulltrúa en þau fengu 8,33 prósent fyrir fjórum árum.
Katrín segir að sem stjórnmálamaður þá velti hún reglulega fyrir sér stöðu sinni og telur hún ekki að sú staða sé sjálfgefin. „Ég er búin að fara víða um land fyrir þessar sveitarstjórnarkosningar og mín niðurstaða er sú að ég er ekkert að fara að gefast upp,“ segir hún.
Enn fremur telur hún að setja þurfi málin í samhengi þegar rætt er um hvort niðurstaða kosninganna sé refsing fyrir ríkisstjórnarsamstarf flokksins með Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum. „Ég held að þetta sé flóknara en það. Ef við skoðun fylgi okkar á landsvísu þá er það allt annað en það fylgi sem við erum að uppskera í þessum sveitarstjórnarkosningum,“ segir hún.