Lögfræðingar Nargizu Salimova skiluðu inn greinargerð til kærunefndar útlendingamála varðandi mál hennar fyrir hádegi í morgun en til stendur að vísa henni úr landi næstu nótt. Hún fór í skýrslutöku til lögreglu í gær þar sem grunur leikur á að hún sé fórnarlamb mansals. Vonast er til að kærunefnd skili svari fyrir kl. 19 í kvöld. Búist er við því að lögreglan sæki hana nokkrum klukkutímum fyrir brottvísun.
Kjarninn fjallaði ítarlega um mál Nargizu fyrir helgi en hún kom til landsins fyrir rúmum átta mánuðum síðan eftir að hafa ferðast langa leið frá heimalandinu Kirgistan. Þjóðerni hennar er Uygur og tilheyrir hún því minnihlutahópi þar. Eftir að eiginmaður hennar hvarf sporlaust fyrir um ári síðan flúði hún frá Kirgistan og endaði á Íslandi.
Hún kom til Íslands með aðstoð smyglara og án vitneskju um hvert hún væri að fara. Hún sótti um hæli á Íslandi þann 20. september síðastliðinn og hófst þar með ferli hennar í kerfinu sem mun taka enda þriðjudaginn 12. júní ef ekkert verður að gert. Þá verður henni vísað úr landi til Litháen eftir að láðist að kæra mál hennar til kærunefndar útlendingamála á tilteknum tíma vegna anna hjá lögfræðingi sem henni var úthlutað hjá Rauða krossinum. Hún gerði sér ekki grein fyrir að um mistök hefði verið að ræða fyrr en eftir að íslenskir vinir hennar fóru að grennslast fyrir um málið.
Samkvæmt heimildum Kjarnans er í fyrsta lagi óskað eftir því við kærunefnd að taka kæruna upp að nýju vegna galla á meðferð máls hennar, bæði hvað varðar talsmann hennar hjá Rauða krossinum en einnig af hálfu stjórnvalda. Talið er að Nargizu hafi ekki verið leiðbeint nægilega vel eftir að kæru var vísað frá.
Í öðru lagi þykir ástæða til að kanna hvort hún hafi verið fórnarlamb mansals en hún kom til landsins með aðstoð smyglara, eins og áður hefur verið greint frá. Í lögum um útlendinga segir að heimilt sé að veita útlendingi sem grunur leikur á að sé fórnarlamb mansals dvalarleyfi í allt að níu mánuði þótt öðrum skilyrðum sé ekki fullnægt. Við rannsókn málsins skuli lögregla veita Útlendingastofnun aðstoð, til dæmis við mat á aðstæðum viðkomandi. Þrátt fyrir önnur ákvæði skuli ekki vísa viðkomandi einstaklingi úr landi á þessu tímabili.
Í þriðja lagi er talið að Nargiza sé sérstaklega viðkvæm vegna heilsu en sálfræðimat liggur nú fyrir vegna andlegrar heilsu. Samkvæmt gögnum í málinu hefur þessi reynsla reynt gríðarlega á Nargizu og þarf hún nauðsynlega á sálfræðihjálp að halda.