Bára Huld Beck Nargiza Salimova

Afglöp Rauða krossins draga dilk á eftir sér

Eftir mistök hjá lögfræðingi Rauða krossins gefst Nargizu Salimova ekki tækifæri til að kæra úrskurð Útlendingastofnunar en hún sótti um alþjóðlega vernd á Íslandi í september síðastliðnum. Afleiðingarnar eru þær að henni verður vísað úr landi næstkomandi þriðjudag. Talsmaður Rauða krossins segir að stofnunin eigi sér engar málsbætur.

Nargiza Salimova kom til landsins fyrir rúmum átta mánuðum síðan eftir að hafa ferðast langa leið frá heimalandinu Kirgistan. Þjóðerni hennar er Uygur og tilheyrir hún því minnihlutahópi þar. Eftir að eiginmaður hennar hvarf sporlaust fyrir um ári síðan flúði hún frá Kirgistan og endaði á Íslandi.

Hún kom til Íslands með aðstoð smyglara og án vitneskju um hvert hún væri að fara. Hún sótti um hæli á Íslandi þann 20. september síðastliðinn og hófst þar með ferli hennar í kerfinu sem mun taka enda þriðjudaginn 12. júní ef ekkert verður að gert. Þá verður henni vísað úr landi til Litháen eftir að láðist að kæra mál hennar til kærunefndar útlendingamála á tilteknum tíma vegna anna hjá lögfræðingi sem henni var úthlutað hjá Rauða krossinum. Henni var aldrei gert grein fyrir mistökunum.

Veit ekkert um afdrif eiginmannsins

Nargiza er fædd 1978 og verður hún því fertug á árinu. Hún ólst upp sem fyrr segir í Kirgistan en fyrir rúmlega ári síðan hvarf eiginmaður hennar eftir vinnu einn daginn. Eftir það hófst atburðarás þar sem hún flutti til föður síns með börnin tvö sem eru fimmtán og sautján ára gömul.

„Ég hafði aldrei val með að flýja heimili mitt og koma hingað,“ segir Nargiza. Átökin í heimalandinu hafa farið versnandi, að hennar sögn, og segir hún að ekki sé vært þar sem Uyguri. Hún segir að ástandið sé hættulegt fyrir fólk eins og hana og þess vegna hafi hún flúið. Hún hafi orðið fyrir ofsóknum og upplifði hún sig óörugga. Hún ítrekar að það hafi ekki verið val, heldur hafi hendur hennar verið bundnar. „Kannski er eiginmaður minn ekki á lífi, ég bara veit það ekki,“ bætir hún við. Hún telur að honum hafi verið rænt vegna uppruna síns. Eiginmaður hennar er ekki ríkisborgari í Kirgistan en hann er Uyguri fæddur í Kína.

Kirgísk stjórnvöld fylgjast grannt með Uygurum

Uygurar eru evrasískt þjóðarbrot sem er skylt Tyrkjum en 80 prósent þeirra búa í sjálfstjórnarhéraðinu Xinjiang í Vestur-Kína. Þeir eru að stærstum hluta múslimar og hafa kínversk stjórnvöld lengi haft horn í síðu þeirra. Samkvæmt samtökunum Amnesty International hafa Uygurar mátt þola pyntingar, mannshvörf og jafnvel aftökur af hendi kínverskra stjórnvalda frá því á níunda áratugnum og sérstaklega hatrammar erjur hafa átt sér stað milli Uygura og Kínverja af Han-uppruna síðastliðinn áratug. Sem dæmi um þetta má nefna fjöldamorð sem kínverski herinn framdi í júlí árið 2009 þar sem 156 manns voru drepin og eitt þúsund manns særðust, 80 prósent af þeim Uygurar, auk þess sem samtökin Human Rights Watch greindu frá því í september árið 2017 að kínversk stjórnvöld hefðu sent tugi þúsunda Uygura í endurmenntunarbúðir.

Innflutningur Uygura inn í Kirgistan frá Xinjiang hófst á sjötta áratug tuttugustu aldarinnar og eru þeir rétt tæp 50.000 talsins þar samkvæmt manntalinu 2009, eða um 0,01 prósent íbúa landsins. Kirgísk stjórnvöld fylgjast grannt með þessu fámenna þjóðarbroti en það gera þau, samkvæmt Steve Swerdlow hjá Human Rights Watch, með persónunjósnum um Uygura, ströngu landamæraeftirliti við Xinjiang og upplýsingasöfnun um aðgerðarsinna á meðal Uygura.

Veit ekki hvernig hún endaði hér – úrræðalaus og hrædd

Eftir hvarf eiginmannsins fór Nargiza á lögreglustöð í heimabænum á hverjum degi til að grennslast fyrir um afdrif hans og til að fá upplýsingar og hjálp frá yfirvöldum. Hún segir að lítið hafi verið um svör og þvert á móti hafi lögreglan áreitt hana og yfirheyrt börnin hennar. Úr varð að hún flúði til nágrannaríkisins Kasakstan og dvaldi þar í þrjá mánuði. Henni var ekki vært þar og var þá förinni heitið til Litháen með nokkrum viðkomustöðum. Að lokum endaði hún á Íslandi. „Ég hreinlega veit ekki hvernig ég komst hingað. Ég vissi lítið um Ísland, enda kom ég bara á peysunni beint í kuldann,“ segir hún.

Við komuna til Íslands dvaldi hún á hóteli og segist hún hafa verið algjörlega úrræðalaus og hrædd. Smyglarinn sem kom henni til landsins hafði tekið vegabréfið hennar en hann lét sig hverfa stuttu eftir komuna hingað, að hennar sögn. Hún tók þá ákvörðun að fara í Útlendingaeftirlitið og leita sér hjálpar og þá byrjuðu hjólin að snúast. Hún sótti um hæli og í kjölfarið fékk hún herbergi sem vistarverur og síðar litla íbúð.

Nargiza Salimova
Bára Huld Beck

Þjáist af miklum kvíða

Börn Nargizu dvelja nú hjá föður hennar á heimili hans í Kirgistan en móðir hennar er látin. Hún hefur áhyggjur af þeim og langar hana að sameina fjölskylduna. Hún talar við þau á hverjum degi og hennar helsta ósk er að fá tækifæri til að byggja upp nýtt líf á Íslandi. Hún vill senda eftir börnunum og búa þeim heimili hér.

Dvölin fjarri fjölskyldunni hefur reynt mikið á Nargizu og þjáist hún að miklum kvíða og vanlíðan en slíkt er ekki óalgengt hjá konum í þessari stöðu. Í greinargerð til Útlendingastofnunar vegna umsóknar hennar um alþjóðlega vernd kemur fram að hún sé metin í einstaklega viðkvæmri stöðu en hún upplifir kvíðaköst eftir reynslu sína, fær martraðir og finnur fyrir mikilli streitu. Jafnframt segir í greinargerðinni að konur og stúlkur séu gjarnan taldar sérstaklega viðkvæmur hópur sem hafi færri tækifæri, úrræði, völd og áhrif en karlmenn vegna samfélagslegrar stöðu sinnar.

Mig langar að vera með krökkunum mínum. Ég vil ekkert annað.

Kæra send inn 4 dögum of seint

Mál Nargizu hjá Rauða krossinum var ekki meðhöndlað sem skyldi en þegar kom að því að kæra niðurstöðu Útlendingastofnunar til kærunefndar útlendingamála þá fórst það fyrir hjá lögfræðingi hjálparstofnunarinnar. Nargiza skilur ekki íslensku og var henni aldrei greint frá mistökunum þar til íslenskir vinir hennar fóru að grennslast fyrir um málið. Þá kom í ljós að vegna „persónulegra ástæðna“ talsmanns Nargizu, sem var lögfræðingur hennar hjá Rauða krossinum, hafi verið komið í veg fyrir að ákvörðun Útlendingastofnunar yrði kærð innan kærufrests.

Samkvæmt gögnum sem Kjarninn hefur undir höndum barst kæra Nargizu fjórum dögum of seint. Eftir að úrskurður Útlendingastofnunar liggur fyrir þá hefur umsækjandi 15 daga til að kæra niðurstöðuna. Nargiza greindi lögfræðingi Rauða krossins frá því innan þess tímaramma að hún vildi kæra úrskurðinn til kærunefndar en í þessu tilfelli var sú skýring gefin að vegna persónulegra aðstæðna talsmanns, sem sagt mikið álag og nokkurra daga frí, hafi ákvörðunin ekki verið kærð innan kærufrests.

Ekki afsakanlegt að kæran hafi borist of seint

Í stjórnsýslulögum segir að hafi kæra borist að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá nema afsakanlegt teljist að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Talsmaður Nargizu fór þess á leit við nefndina að litið yrði til bágrar andlegrar heilsu kæranda og hagsmuna hennar af því að fá málið sitt tekið til meðferðar hjá nefndinni. Hún hafi verið ein á ferð, átt erfitt síðustu mánuði og fundið fyrir ýmsum líkamlegum einkennum sem orsakist að öllum líkindum af álagi og stressi.

Þann 20. mars síðastliðinn vísaði kærunefnd útlendingamála kæru Nargizu á ákvörðun Útlendingastofnunar frá. Taldi nefndin að ekki væri afsakanlegt að kæran hefði ekki borist innan þess tímaramma sem lögin áskilja. Jafnframt taldi nefndin þær ástæður sem kærandinn bar fyrir sig ekki teljast veigamiklar í skilningi stjórnsýslulaga.

Nargiza er nú komin með annan lögfræðing sem vinnur í því að kæra hennar verði endurskoðuð áður en henni verður vísað úr landi næstkomandi þriðjudag.

Hrikalega sorglegt

Atli Viðar Thorstensen, sviðsstjóri á hjálpar- og mannúðarsviði hjá Rauða krossinum, segir að um mannleg mistök hafi verið að ræða. „Hjá okkur eru skýrir ferlar og reglur,“ segir hann og bætir því við að mikill fjöldi mála fari í gegnum Rauða krossinn á ári hverju. Hann tekur það fram að þrátt fyrir fjölda mála eigi mistök sem þessi ekki að eiga sér stað. 

„Þetta er hrikalega sorglegt, við erum miður okkar,“ segir hann. Þrjú teymi eru starfandi í málaflokknum og eru teymisstjórar yfir hverju og einu. Síðan er sviðsstjóri yfir öllu saman. Teymisstjórar lesa yfir gögn og leiðbeina starfsmönnum og segir Atli Viðar að reglurnar séu mjög nákvæmar. Eftir þetta atvik hafi verkferlum þó verið breytt og nú sé farið enn betur yfir gögn tengd málum umsækjenda um alþjóðlega vernd. „Við eigum okkar engar málsbætur,“ segir hann að lokum.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiFólk