Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis hefur svarað Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni formanni Miðflokksins um leyfisveitingar fyrir „hálfnakið fólk“ í Alþingishúsinu.
Sigmundur spurði Steingrím í gær í skriflegri fyrirspurn út í gjörning sem var settur á svið í tilefni af opnun sýningarinnar Demoncrazy á Listahátíð Reykjavíkur í síðustu viku. Í honum gengu berbrjósta ungar konur frá Alþingishúsinu við Austurvöll að Listasafni Íslands til að „ögra þeirri jakkafataklæddu, miðaldra og karlkyns ímynd valdsins sem þær hafa alist upp við.“ Meðal annars stóðu konurnar í dyrum Alþingis er snýr að Austurvelli, en ljósmyndari mbl.is smellti mynd af konunum í þeim aðstæðum.. Áður hafði ljósmyndasýning af konunum opnað við Asuturvöll í tengslum við gjörninginn.Í skriflegu svari Steingríms kemur fram, við spurningunni um hver hafi veitt leyfi fyrir því að hálfnakið fólk nýtti Alþingishúsið í auglýsingaskyni og gengi þaðan á sama hátt og forseti Íslands og þingmenn geri við þingsetningu, að myndatakan hafi farið fram í þingflokksherbergi Sjálfstæðisflokksins og að það muni hafa verið formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins sem veitti góðfúslega leyfi fyrir myndatökunni og „við það gerir forseti engar athugasemdir“ segir í svari Steingríms.
Birgir Ármannsson er þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins og segir það passa að hann hafi veitt leyfi fyrir myndatökunni í samtali við Kjarnann. „Ég get haft mínar persónulegu skoðanir á þessum listgjörningi eins og ýmsum öðrum en á hinn bóginn þá truflar það mig ekki þó að þetta hafi verið með þessum hætti,“ aðspurður um hvað legið hafi að baki þessu leyfi.
„Í þessu tilviki var óskað eftir myndatöku í þingflokksherbergi okkar og það er auðvitað óvenjulegt en ég sá ekki ástæðu til að leggjast gegn því,“ segir Birgir og segir um það hvort aðrir hópar megi vænta þess að fá leyfi fyrir sams konar viðburðum að það hlóti að metast bara í hverju tilviki fyrir sig og ekki hægt að gefa neitt algilt svar við því. „Auðvitað er umgengni um þinghúsið háð ákveðnum reglum, skilyrðum og leyfum en ég sé enga ástæðu til þess að amast við þessum listgjörningi.“
Í svari Steingríms segir um listgjörninginn: „ Varðandi þann listgjörning að hópur kvenna gekk berbrjósta út úr Alþingishúsinu um aðaldyr og út í bæinn, þá var leyfi til þess veitt af skrifstofustjóra Alþingis og er það sömuleiðis athugasemdalaust af hálfu forseta. Áður hafði verið vel tekið í ósk aðstandenda Listahátíðar um samvinnu við Alþingi um uppsetningu mynda og var forseti því meðmæltur. Ekki reyndi þó, þegar til kom, á þann þátt með sama hætti og til stóð þar sem það fannst annar heppilegri staður fyrir uppsetningu myndanna. Rétt er að minna á í þessu sambandi að listviðburður þessi og gjörningur er í beinu samhengi við þá vakningu sem konur víða um heim, og einnig á Íslandi, hafa hrundið af stað undir formerkjunum „Ég líka“ og hefur m.a. leitt til þess að Alþingi hefur nú breytt siðareglum sínum og einnig haldið rakarastofuviðburð, hvort tveggja í því skyni að vinna gegn hvers kyns kynbundnu áreiti, kynbundnu ofbeldi, einelti og annarri óásættanlegri hegðun.“
Sigmundur Davíð spurði Steingrím einnig um hvort hann teldi umrædda notkun á þinghúsinu og þinghefðum til þess fallna að auka virðingu Alþingis. Steingrímur svarar því til að á því kunni eðlilega að vera skiptar skoðanir og fari eftir smekk manna og viðhorfi til listsköpunar. „Viðhorf forseta er að Alþingi eigi að vera í góðum tengslum við þjóðlífið og finna til í stormum sinnar tíðar. Þar á meðal er að leggja fyrir sitt leyti lið ef óskað er eftir atbeina við listsköpun og atburði af því tagi sem Listahátíð í Reykjavík er og ekki síst ef vettvangur slíkra atburða er næsta nágrenni þinghússins.“
Steingrímur segir að engin afstaða sem slík hafi verið tekin til boðskaparins sem listamennirnir vildu koma á framfæri eða þess málstaðar sem þeir vildu með listsköpun sinni þjóna. „Forseti dregur þó enga dul á að hann lítur með velvilja og aðdáun á þá vakningu sem konur hafa með hetjulegri framgöngu sinni og frásögnum vakið varðandi margs konar forneskjuleg viðhorf og óásættanlega framkomu sem þær mega enn sæta í samtímanum vegna kynferðis síns. Þessi afstaða forseta hafði þó ekki áhrif í þessu tilviki, heldur þau almennu sjónarmið sem að framan greinir um að Alþingi eigi að vera í góðum tengslum við þjóðlífið og megi gjarnan styðja við atburði af því tagi sem Listahátíð í Reykjavík er, ef eftir því er leitað.“
Steingrímur segir í lokinn að væntanlega yrðu sömu viðhorf uppi ef eftir einhverju sambærilegu yrði leitað í framtíðinni og aðstæður að öðru leyti sambærilegar. Hann vonar að aldrei verði farið inn á þá braut að láta einhvers konar listpólitíska íhlutun eða afstöðu ráða för heldur almenn sjónarmið. Þá segir hann, aðspurður um hvort þetta leyfi sé til marks um að vænta megi frekari tilslakana á reglum um klæðaburð Alþingismanna, að listviðburðurinn sé rótgrónum venjum um snyrtilegan klæðaburð þingmanna við vinnu sína óviðkomandi með öllu.