Nefnd á vegum sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu hefur komist að þeirri niðurstöðu að athugasemdir af hálfu umboðsmanna Pírata vegna sveitarstjórnarkosninganna, sem gerðar voru í kæru til nefndarinnar, séu ekki slíkar að þær leiði til ógildingar kosninganna.
[link]Meðal þess sem kvartað var yfir var úthlutun á listabókstaf til framboðslista vegna kosninganna en Frelsisflokkurinn fékk bókstafnum Þ úthlutað sem Pírötum fannst of líkt P-inu sem þeir nota. Slíkt gæti valdið ruglingi meðal kjósenda. Nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að hvergi sé kveðið á um það í íslenskri kosningalöggjöf að yfirkjörstjórn beri að líta til innbyrðis ruglingshættu á stöfum íslenska stafrófsins. Engin málefnaleg rök sett fram í erindi kærenda vegna þessara athugasemda og er það mat kjörnefndar að ekki hafi verið neitt athugavert við framkvæmd og úthlutun bókstafanna.
Píratar gerðu einnig meðal annars athugasemdir við kjörkassana, hvernig meðferð þeirra var háttað og hvernig þeir voru útlítandi og samansettir. til dæmis að númer kassanna hafi verið ritað með blýanti með límmiða, þeir skrúfaðir saman á hliðunum, einn kassi hafi brotnað sem sýni hversu úr sér gengnir kassarnir séu og fleira. Nefndin segir hins vegar að kassanir séu í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru í lögum um frágang þeirra og ástand.
Píratar lögðu fram sambærilega kæru fyrir kosningar en henni vísaði sýslumaður frá vegna þess að ekki er hægt að kæra kosningar fyrr en þær eru afstaðnar. Í samtali við mbl.is stuttu eftir kosningar þegar kæran var lög aftur fram sagði Dóra Björt Guðjónsdóttir oddviti Píraata í Reykjavík að þeim hafi fundist bókstafirnir mjög ruglandi fyrir kjósendur. Hún sagði að markmiðið sé ekki að láta ógilda kosningarnar, heldur vekja athygli á ólíðandi vinnubrögðum við framkvæmd kosninga.
Lestu úrskurð nefndarinnar hér.