Áhugi Færeyinga á leikjum íslenska landsliðsins í fótbolta vakti athygli á Íslandi þegar það keppti á Evrópumeistaramótinu fyrir tveimur árum. Fjöldi manns safnaðist saman í Þórshöfn og fagnaði mikið þegar liðinu gekk vel. En skildi það sama vera upp á teningnum fyrir þetta mót?
„Færeyingar hafa mjög mikinn áhuga á fótbolta og íþróttum yfir höfuð. Þar af leiðandi er mikill áhugi á heimsmeistaramótinu í fótbolta,“ segir Leivur Frederiksen, yfirmaður íþróttadeildar KVF – ríkissjónvarpsins í Færeyjum.
Hann segir að margir Færeyingar hafi einhvers konar tengsl við Ísland svo nánast allir vonist til að íslenska liðinu gangi vel.
Allir leikir íslenska liðsins verða sýndir á stórum skjá í miðbæ Þórshafnar í Færeyjum eins og gert var fyrir tveimur árum. Leivur segist búast við því að margmenni safnist saman við tilefnið líkt og gerðist þegar Ísland keppti á EM.
Ríkisstöð Færeyja, KVF, sýnir alla leikina á mótinu en samkvæmt Leivi munu danskir þulir lýsa leikjunum, enda sé samningur milli stöðvarinnar og dönsku stöðvanna DK og TV2.
Hann bendir þó á að margir í Færeyjum nái útsendingum RÚV. „Þess vegna er mjög líklegt að fólk muni horfa á íslensku leikina í gegnum RÚV þar sem gríðarlega gaman er að hlusta á æsta manninn ykkar sem verður á staðnum,“ segir hann og á þar við íþróttafréttamanninn, Gumma Ben. Eins og frægt er orðið vakti hann mikla athygli með lýsingu sinni á EM 2016.
Hér fyrir neðan má sjá stemninguna í Þórshöfn fyrir tveimur árum.
Fagnaðarlætin í Tórshavn eftir lokaspyrnuna. Þau eru ekki einu sinni að spila. Þetta er svo ógeðslega fallegt. pic.twitter.com/og0dZYgYmJ
— Sylvía Hall (@sylviaahall) June 14, 2016