Mikil spenna er nú farin að byggjast upp fyrir leikinn sögulega gegn Argentínu á HM á morgun, en Íslendingar eru farnir að streyma til Moskvu þar sem leikurinn fer fram.
Hann hefst klukkan 13:00 á morgun og fer fram á Spartak Stadium.
Spá Google fyrir leiknum segir að 71 prósent líkur séu á sigri Argentínu, 18 prósent líkur a jafntefli og 11 prósent líkur á sigri Íslands.
Óli Ingi: Þurfum að verjast betur en nokkurn tímann áður https://t.co/I9V42jTRhJ
— Fotbolti.net (@Fotboltinet) June 14, 2018
Fótboltavefurinn www.fotbolti.net hefur verið með yfirgripsmikla umfjöllun um undirbúning landsliðsins.
Ólafur Ingi Skúlason, miðjumaður í íslenska landsliðinu, segir í viðtali við Fótbolta.net að íslenska liðið þurfi að verjast betur en það hafi gert nokkurn tímann, og nýta síðan styrkleika Íslands þegar færi gefst. Sem er ekki síst að nýta skyndisóknir og föst leikatriði til að skapa hættu við mark andstæðingana.
Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði, hefur verið í kapphlaupi við tímann vegna meiðsla, en Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari, hefur gefið það út að hann verði klár fyrir leikinn mikilvæga gegn Argentínu.
Fjölmiðlaumfjöllun um íslenska landsliðið hefur verið gríðarlega mikil um allan heim, í aðdraganda HM og birti New York Times meðal annars ítarlegt viðtal við Heimi Hallgrímsson í blaðinu og á vefnum í gær. Þar er talað um að Ísland sé með þjálfar sem sem togi tennur úr fólki til að slaka á, en Heimir er tannlæknir að mennt og sinnir því starfi þegar færi gefst, þó þjálfun íslenska landsliðsins eigi að sjálfsögðu hug hans allan.
Some see its size as a hindrance, but Iceland finds strength in its numbers. @GrantWahl tells the story behind its meteoric rise as a soccer nation https://t.co/dvHEVlAXQk pic.twitter.com/IOd6ejm3Hp
— Sports Illustrated (@SInow) June 3, 2018
Time og Sports Illustrated hafa verið með Ísland á forsíðum sínum í aðdraganda keppninnar, og sjónvarpsstöðvarnar ESPN og FOX Sports hafa báðar fjallað mikið um Ísland undanfarna daga, í aðdraganda keppninnar. Útgangspunkturinn í umfjölluninni er oftar en ekki hvernig á því stendur, að 350 þúsund manna þjóð hafi náð svo góðum árangri í fótbolta, en Ísland er sem kunnugt er fámennasta landið í sögunni til að koma landsliði í úrslitakeppni HM.