Argentínskir miðlar eru ekki par sáttir við frammistöðu landsliðs síns í leik sínum gegn Íslandi. Leikurinn endaði með 1-1 jafntefli, en víða er minnst á varnarleik Íslendinga auk vítisins sem Hannes Halldórsson varði gegn Messi á 64. mínútu.
Argentínska blaðið Clarin tók viðtal við Jorge Sampaoli, þjálfara landsliðsins, rétt eftir leikslok. Þrátt fyrir vonbrigði vegna jafnteflis í þessum leik var Sampaoli bjartsýnn á framhaldið. „Þetta er bara byrjunin fyrir okkur. Við munum læra á mistökum okkar og verðum að safna krafti til að vinna næsta leik,“ sagði þjálfarinn.
Íþróttamiðillinn Olé er ekki jafnjákvæður og Sampaoli, en á forsíðu hans stendur stórum stöfum “Qué penal!,” sem þýða mætti sem „hvílíkt og annað eins víti!“ Þar einnig skrifað um brotlendingu Argentínu gegn Íslandi, þrátt fyrir fjölmörg sóknarfæri.
"Völundarhús" íslensku varnarinnar
Blaðið La Nacion fjallaði einnig um vonbrigði vegna úrslita leiksins. Samkvæmt þeim var óttinn um vandamál landsliðsins á fyrsta leik mótsins á rökum reistur, auk þess sem varsla Hannesar gegn Messi hafi verið óvæntur „bónus“ sem jók enn á óöryggi liðsins. Þrátt fyrir að margir áhorfendur leiksins í Moskvu hafi búist við flugeldasýningu frá Messi hafi hann ekki komist úr “völundarhúsi” íslensku varnarinnar.
Samkvæmt La Nacion voru úrslit leiksins andlegt og fótboltalegt sjokk fyrir Argentínumenn, en hins vegar sigur fyrir Íslendinga. „Ísland skráði sig á spjöld sögunnar, þökk sé Argentínu sem ollu vonbrigðum.“