Þýska samsteypan Lufthansa hefur sýnt áhuga á að kaupa hlut í lággjaldaflugfélaginu Norwegian, samkvæmt frétt Süddeutsche Zeitung sem birtist í morgun. Carsten Spohr, forstjóri Lufthansa, segir samrunaöldu yfirvofandi í evrópskum flugfélögum. Norski hlutabréfamarkaðurinn tók fréttunum vel, en þegar þetta er skrifað hafa hlutabréf Norwegian hækkað um rúm 10% frá opnun markaða.
Samkvæmt fréttinni sagði Carsten Spohr, forstjóri Lufthansa, flugfélagið vera í sambandi við Norwegian vegna yfirvofandi samruna í evrópskum flugfélögum á næstunni. „Flugfélögin eru samrýmd í spá sinni um að farþegafjöldi muni tvöfaldast aftur á næstu 20 árum,” segir Spohr, þrátt fyrir flöktandi verð á olíu. „Hins vegar muni það (flöktandi olíuverð) halda áfram að knýja fram samruna í geiranum, þar sem á tímum þar sem steinolíuverð er hátt muni hinir sterku verða sterkari og hin veiku verða veikari.”
Norwegian hefur staðið í rekstrarvandræðum undanfarin misseri, en virði fyrirtækisins tók að aukast á ný fyrir tveimur mánuðum síðan eftir að flugsamsteypan IAG lýsti yfir áhuga sínum á að kaupa flugfélagið. IAG gerði tvö kauptilboð í félagið, en báðum tilboðum var hins vegar hafnað.
Aðrar yfirtökur mögulegar
Í samtali við fréttastofu Reuters segir Spohr Lufthansa munu grípa önnur tækifæri til yfirtöku á öðrum flugfélögum ef þau berast, öll fyrirtæki í geiranum séu í samtali við hvern annan. Önnur heimild fréttastofunnar sagði lággjaldaflugfélagið einnig vera heppilega viðbót við Lufthansa , meginkostur Norwegian væri sá að það sé í virkum rekstri með lágan kostnað.
Lufthansa hefur staðið í nokkrum yfirtökum á síðustu misserum, en tók yfir hluta af Air Berlin í fyrra og keypti útistandandi hluti í Brussels Airlines nýverið. Einnig hefur samsteypan haft auga á ítalska ríkisflugfélaginu Alitalia, þótt söluferlið sé tafið vegna stjórnmálaólgu þar í landi.
Kaupstríð ólíklegt
Einnig er fjallað um málið í norska viðskiptablaðinu Dagens Næringsliv, en þar segir að ólíklegt sé að kaupstríð milli IAG og Lufthansa sé í vændum. Forstjóri IAG, Jimmy Walsh, þvertók fyrir það einnig á ársfundi samsteypunnar í Madríd í síðustu viku, þrátt fyrir að þeir nálgist fyrirhuguð kaup á Norwegian með opnum hug.
Hlutabréfaverð Norwegian hefur rokið upp í kjölfar fréttanna í morgun, en virði fyrirtækisins á norska hlutabréfamarkaðnum hefur aukist um rúm 10% það sem af er degi.