Tónlistarhátíðin Secret Solstice hefst í dag en þetta er í fimmta sinn sem hátíðin er haldin. 15.000 miðar eru í boði og reikna aðstandendur hátíðarinnar með að uppselt verði á hana. Með stærstu númerum hátíðarinnar eru Stormzy, Gucci Mane og hljómsveitin Clean Bandit. Bonnie Tyler mun troða upp í kvöld en hún varð fyrst fræg á áttunda áratug síðustu aldar. Alls munu 140 atriði vera sýnd á hátíðinni og því úr ýmsu að moða fyrir hátíðargesti.
Töluverð gagnrýni var á hátíðina þegar hún var haldin í fyrra en íbúar í Laugardalnum kvörtuðu yfir slæmri umgengni á meðan á hátíðinni stóð og eftir hana.
Jón Bjarni Steinsson, einn af skipuleggjendum Secret Solstice, segir að nú standi þetta til bóta og séu þau komin með samning við Reykjavíkurborg um þrif utan svæðis. Jafnframt hafi þau ráðið breskt fyrirtæki til að sjá um þrif og flokkun inn á svæðinu. Ásamt því séu 15 starfsmenn frá þeim sem hjálpi til við þrifin. Jón Bjarni segir að í fyrra hafi girðingin í kringum svæðið verið tekin niður of fljótt og vegna veðráttu hafi ruslið fokið út um allt. Nú verði þetta gert með öðrum hætti og girðingin ekki tekin niður strax.
Tekin var sú ákvörðun í ár að selja færri miða en í fyrra. Jón Bjarni segir ástæðuna vera að Íslendingar eigi það til að kaupa miða á síðustu stundu og því sé erfitt að áætla fjölda hátíðargesta fyrirfram. Nú sé miðafjöldi áætlaður og auðveldara er, að hans sögn, að skipuleggja hátíðina vegna þess.