Brian Krzanich, framkvæmdastjóri bandaríska tölvufyrirtækisins Intel, sagði af sér fyrr í dag eftir að innri rannsókn leiddi í ljós að samband hans við starfsmann fyrirtækisins hafi brotið í bága við fyrirtækjareglur.
Í frétt um máliðá vef Reuters er atvikið tengd við #MeToo byltinguna, en hún átti þátt í því að skapa umræðu um óviðeigandi samskipti valdamikilla karlmanna við samstarfsfélaga sína. Umræðan hafi leitt til mikilla hræringa í heimi stjórnmála og viðskipta, en afsögn Krzanich sé nýjasta dæmi þess.
Intel gaf út opinbera yfirlýsingu um málið og sagði í henni að innri rannsókn hafi staðfest brot á siðareglum innan fyrirtækisins sem bannar ástarsambönd milli starfsmanna, en þeim þurfi allir yfirmenn fyrirtækisins að fylgja eftir. Hins vegar hafi fyrirtækið ekki gefið neinar frekari upplýsingar um rannsóknina.
Krzanich var ráðinn framkvæmdastjóri Intel í maí 2013 og sá um breytingu á áherslum fyrirtækisins úr framleiðslu fyrir einkatölvur í gagnaversþjónustu. Í stjórnartíð hans hækkuðu hlutabréf Intel um meira en 100%.
Hlutabréfamarkaðurinn brást illa við fréttunum fyrr í dag, en virði hlutafjár fyrirtækisins hefur lækkað um rúmt prósent frá opnun markaða vestanhafs fyrir einum og hálfum tíma síðan.
Stjórn Intel hefur ráðið fjármálastjóra fyrirtækisins, Robert Swan, sem framkvæmdastjóri til bráðabirgða og leitar nú bæði innan og utan fyrirtækisins að nýju framkvæmdastjóraefni.