Héraðsdómur Reykjaness sýknaði fyrr í dag Jón Steinar Gunnlaugsson af tveggja milljóna króna kröfu Benedikts Bogasonar vegna meintrar ærumeiðingar. Samkvæmt dómnum voru orð Jóns Seinars notuð í óeiginlegri eða yfirfærðri merkingu og því ekki refsiverð. Dóminn má nálgast hér.
Málið snerist um ummæli Jóns Steinars í nýrri bók sinni, „Með lognið í fangið,“ en í henni skrifar Jón Steinar að Hæstiréttur hafi framið dómsmorð á Baldri Guðlaugssyni, fyrrverandi ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu. Hæstiréttur staðfesti tveggja ára fangelsisdóm yfir Baldri vegna innherjasvika og brota í opinberu starfi í tengslum við sölu hans á hlutabréfum í Landsbankanum.
Benedikt krafðist þess að fimm ummæli í bók Jóns Steinars yrðu dæmd dauð og ómerk, auk þess sem miskabóta var krafist að fjárhæð tveggja milljóna króna. Öll ummælin sem um ræðir sneru að fullyrðingum Jóns um að dómsmorð hafi verið framið. „Dómsmorð er.. dráp af ásettu ráði, þar sem réttarfarið verður að morðtólinu,“ skrifar Jón Steinar meðal annars í bók sinni og vísar þar til gamallar skilgreiningar á hugtakinu.
Í dómi Héraðsdóms segir að stefnandi og öðrum hæstarréttardómurum séu hvergi sakaðir um refsiverða háttsemi. Jón hafi stundum tekið sterkt til orða sinna í gagnrýni sinni á Hæstarétt en þegar umfjöllun hans sé virt í heild verður talið að hann hafi notað hugtakið dómsmorð í óeiginlegri eða yfirfærðri merkingu, aðallega til þess að leggja áherslu á orð sín. Ummælin verði því ekki dæmt ómerk og Jón sýknaður af öllum kröfum Benedikts.