Mannréttindi og mál Hauks Hilmarssonar voru á meðal þess sem Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, og Nihat Zeybekci, efnahagsmálaráðherra Tyrklands, ræddu á fundi í Skagafirði í morgun. Guðlaugur Þór kom enn fremur á framfæri gagnrýni á hernað Tyrkja í Norður-Sýrlandi.
Þetta kemur fram í frétt utanríkisráðuneytisins.
Zeybekci er staddur hér á landi í tengslum við ráðherrafund EFTA sem nú stendur yfir á Sauðárkróki en í morgun var skrifað undir uppfærðan fríverslunarsamning EFTA og Tyrklands. Áður en samningurinn var undirritaður áttu þeir Guðlaugur Þór stuttan fund, samkvæmt ráðuneytinu.
„Ráðherrarnir ræddu meðal annars tvíhliða samskipti Íslands og Tyrklands og nýafstaðnar kosningar í Tyrklandi. Þá kom utanríkisráðherra á framfæri gagnrýni íslenskra stjórnvalda á stöðu mannréttinda í Tyrklandi og hernaðaraðgerðir Tyrkja í Afrin-héraði í Sýrlandi. Loks tók Guðlaugur Þór upp við tyrkneska ráðherrann mál Hauks Hilmarssonar sem talinn er hafa fallið í hernaði Tyrkja í Afrin-héraði fyrr á þessu ári. Zeybekci tók málaleitaninni vel en hafði engar nýjar upplýsingar sem varpað gætu ljósi á málið, en hét því að tyrknesk yfirvöld myndu áfram veita aðstoð sína við að upplýsa um afdrif Hauks,“ segir í fréttinni.
Erdogan áfram forseti
Kjarninn greindi frá því í morgun að Recep Tayyip Erdogan hefði verið kjörinn forseti Tyrklands í gær. Hann fékk 52,5 prósent atkvæða og þar af leiðandi þarf ekki að kjósa að nýju milli tveggja efstu eftir tvær vikur. Muharrem Ince, leiðtogi Lýðræðisflokksins CHP, fékk 30,7 prósent en kjörstjórn mun ekki birta lokaniðurstöðurnar úr forsetakosningunum fyrr en á föstudaginn næstkomandi.
Flokkur hans Réttlætis- og þróunarflokkurinn AK, fékk enn fremur flest atkvæði í þingkosningunum en kosið var til þings á sama tíma. Þegar 99 prósent atkvæða höfðu verið talin var flokkurinn með 42 prósent atkvæða en CHP með 23 prósent. Kjörsókn var góð, eða 87 prósent.
Mótmæltu aðgerðaleysi stjórnvalda
Aðgerðarhópurinn „Hvar er Haukur“ stóð fyrir fánaskiptum á þaki Stjórnarráðsins þann 17. júní síðastliðinn, af því tilefni að liðið var á fjórða mánuð frá því fréttist að því að Hauks Hilmarssonar væri saknað eftir loftárás Tyrkja á sjálfstjórnarsvæði Kúrda í Sýrlandi. Haukur barðist við hlið Kúrda gegn Islamska ríkinu í Raqqa og síðar gegn innrás Tyrkja í Afrín. Lík Hauks hefur ekki fundist og í raun engin sönnun þess að hann sé látinn.
Í fréttatilkynningu frá hópum sagði að óskum fjölskyldu Hauks um að Tyrkir verði krafðir svara um það hvað varð um lík þeirra sem féllu í Afrín hefði utanríkisráðuneytið svarað á þann veg að það fylgi ráðleggingum tyrknesku lögreglunnar og vilji því ekki bera þessa spurningu undir stjórnvöld í Tyrklandi.
„Ennfremur telur ráðuneytið, þrátt fyrir að alþjóðlegi stríðsglæpadómstóllinn í París telji tyrknesk stjórnvöld sek um stríðsglæpi gegn Kúrdum, að þar sem Tyrkir segist sjálfir fara að alþjóðalögum á átakasvæðum sé ekki ástæða til að óttast að líkin liggi enn á víðavangi.
Ráðuneytið hefur því ekki fengist til að spyrja tyrknesk stjórnvöld hvers vegna Rauða krossinum sé ekki leyft að leita að líkum á svæðinu. Forsætisráðuneytið hefur neitað að taka við málinu enda telur forsætisráðherra að Utanríkisráðuneytið vinni að því „af heilindum“,“ sagði í tilkynningunni.
„Ágætur fundur“
Guðlaugur Þór sagði að fundur hans og efnahagsmálaráðherra Tyrklands hefði verið ágætur og að gott hefði verið að fá tækifæri til að ræða þessi mál við Zeybekci. „Ég hef þegar tekið upp mál Hauks Hilmarssonar við varnarmálaráðherra og utanríkisráðherra Tyrklands og aðrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa líka vakið máls á því við erlenda ráðamenn þar sem þess hefur verið kostur. Með komu tyrkneska ráðherrans hingað til lands gafst okkur enn eitt tækifærið til að knýja á um frekari upplýsingar og samstarf í þessu sorglega máli,“ sagði ráðherra eftir fundinn.