Leiguverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 7,2% milli maímánuða í ár og í fyrra, sem er rúm þreföld hækkun á fasteignaverði í fjölbýli fyrir sama tímabil. Mest hefur hækkunin verið í Vesturbæ Reykjavíkur, en þar hefur leiguverð á 4-5 herbergja íbúðum aukist um rúman fjórðung.
Í nýrri hagsjá Landsbankans er farið yfir fasteignamarkaðinn og muninn á leigu- og kaupverði síðustu ára. Þar er vísitala leiguverðs byggð á þinglýstum samningum og er því reiknuð á sama hátt og leiguvísitala Þjóðskrár Íslands. Landsbankinn skiptir svo íbúðarhúsnæði í flokka eftir staðsetningu og herbergjafjölda.
Misræmi milli kaup-og leiguverðs
Samkvæmt hagsjánni hafa breytingar á leigu- og kaupverði fjölbýlis á höfuðborgarsvæðinu fylgst nokkuð náið að frá árinu 2011 þegar Þjóðskrá birti vísitölu leiguverðs. Um mitt sumar 2015 skildu hins vegar leiðir, en vísitala leiguverðs lækkaði verulega og dróst aftur úr vísitölu kaupverðs. Slík hefur þróunin verið allt þar til í júní í fyrra þegar verulega dró úr hækkunum kaupverðs. Síðan hefur dregið saman með þessum stærðum og leiguverð hækkað hraðar en kaupverð íbúða.
Fjórðungshækkun í Vesturbæ
Hæstu leiguverðin má finna í Reykjavík vestan Reykjanesbrautar, en þar hefur leiguverð stærri íbúða einnig hækkað einna mest á landinu. Milli Reykjanesbrautar og Kringlumýrarbrautar hækkaði leiga á þriggja herbergja íbúðum um 19,7%, en vestan Kringlumýrarbrautar auk Seltjarnarness hækkaði leiga á 4-5 herbergja íbúðum um 26,1%. Til samanburðar lækkaði leiguverð á þriggja herbergja íbúðum í Breiðholti um 5,1% og leiga á 4-5 herbergja íbúðum í Garðabæ og Hafnafirði lækkaði um 6,5%.