Mannréttindadómstóll Evrópu hefur tekið kæru vegna Landsréttarmálsins til meðferðar og farið fram á skýringar frá íslenska ríkinu. Svo skjót málsmeðferð er einsdæmi enda rétt um mánuður frá því kæra barst dómstólnum. Ástæðan er sögð alvarleg réttaróvissa, sem hætta sé á að skapist vegna málsins.
Þetta kom fram í fréttum RÚV í kvöld.
Hæstiréttur staðfesti þann 24. maí síðastliðinn dóm Landsréttar í sakamáli manns sem hafði verið dæmdur í 17 mánaða fangelsi fyrir margvísleg brot. Þetta þýðir, að mati Hæstaréttar, að Arnfríður Einarsdóttir megi dæma í Landsrétti.
Vilhjálmur Vilhjálmsson, verjandi mannsins, lagði fram kröfu í Landsrétti þann 2. febrúar síðastliðinn um að Arnfríður Einarsdóttir, dómari við dómstólinn, víki sæti úr dómsmáli sem henni hafði verið úhlutað vegna vanhæfis. Arnfríður var einn fjögurra dómara sem dómsmálaráðherra lagði til að yrði skipuð í stað þeirra fjögurra sem sérstök hæfnisnefnd mat hæfasta.
Landsréttur hafnaði kröfu Vilhjálms í lok febrúar síðastliðnum og sagði að skipuninni yrði ekki haggað. Alþingi hefði samþykkt skipunina og á þeim grundvelli hefði forseti Íslands skipað hana. Þá lægi fyrir að Arnfríður uppfylli, og uppfyllti við skipunina, almenn hæfisskilyrði samkvæmt lögum um dómstóla. Sem skipuðum dómara bæri henni að rækja þann starfa sem embættinu fylgir í samræmi við stjórnarskránna. Þá nyti hún sjálfstæðis í embættisathöfnum sínum, meðal annars gagnvart ráðherra sem gerði tillögu um skipan hennar í embættið.
Í frétt RÚV kemur fram að spurningar Mannréttindadómstólsins til íslenska ríkisins séu í tveimur liðum. Þar sé meðal annars spurt, hvernig það samrýmist ákvæði mannréttindasáttmála að skipun dómara hafi ekki fylgt þeim ákvæðum laga að Alþingi skuli greiða atkvæði um hvert og eitt dómaraefni fyrir sig, í stað þess að greiða atkvæði um tillögu ráðherrans í heild eins og gert var. Enn fremur sé spurt um niðurstöðu Hæstaréttar frá í maí í samhengi við fyrri dóm Hæstaréttar um brot ráðherrans á lögum við skipunina. Með öðrum orðum vilji Mannréttindadómstólinn vita hvernig ólögleg skipan dómara geti haldist í hendur við þá niðurstöðu að sömu dómarar sitji löglega í réttinum.
Gunnar Ingi Jóhannsson hæstaréttarlögmaður var í viðtali við RÚV en hann hefur mikla reynslu af því að sækja mál fyrir mannréttindadómstólnum. Hann segir afgreiðslu réttarins nú einsdæmi í sögu íslenskra mála þar.
„Þetta var alveg einstaklega hraður tími. Það er algengt að þessi mál taki þrjú til fimm ár jafnvel ívið lengur. Mál sem kært er til dómstólsins og varða hugsanlega réttaróvissu í einstökum ríkjum þau eru flokkuð þannig að þau á að reka hraðar og þau eru tekin fram fyrir önnur mál,“ segir Gunnar Ingi í samtali við RÚV.