Útflutningsfyrirtæki á Íslandi hafa lítið sem ekkert nýtt sér nýjar leiðir í greiðslumiðlun, en þróun í þeim geira hefur verið nokkuð hæg hérlendis. Þó er líklegt að það muni breytast með nýrri löggjöf Evrópusambandsins, samkvæmt nýlegri skýrslu Íslandsstofu.
Skýrslan, sem ber heitið „Banka-og millifærslukostnaður íslenskra útflutningsfyrirtækja,“ tók viðtöl við 41 fyrirtæki hér á landi sem starfa að nokkru eða öllu leyti í útflutningi á vörum og þjónustu. Af viðtölunum að dæma töldu fyrirtækin bankakostnað sinn vera óverulegan hluta af árlegri veltu fyrirtækisins, eða í mesta lagi 0,1%.
Sömuleiðis sögðust engin þeirra hafa nýtt sér þjónustu fjártæknifyrirtækja, en að sögn skýrsluhöfunda er líklegt að það muni breytast í kjölfar innleiðingar svokallaðra PSD2-laga Evrópusambandsins.
Kjarninn hefur áður fjallað um PSD2, en lögin urðu að umfjöllunarefni nýjasta tímarits Peningainnviða Seðlabankans. Samkvæmt Seðlabankanum gætu lögin leitt til lækkunar á verði fjármálaþjónustu auk fleiri greiðslumöguleika en eru til núna í hefðbundinni bankastarfsemi.
Eftirbátur Norðurlanda
Í skýrslu Íslandsstofu er einnig vikið að þróun í fjártæknilausnum hérlendis í alþjóðlegu samhengi, en Ísland er eina norræna ríkið sem hefur ekki sameinast um eina sameiginlega greiðslumiðlun í gegnum app sem allir bankar landsins nota. Sömuleiðis hafi fjártæknin þróast hægt hér á landi, en viðskiptamódel fjármálafyrirtækja á Íslandi sé almennt sú sama og fyrir hrun.
Skýrsluhöfundar leiða að því líkum að meginástæða þess sé að fjármálakerfið hérlendis hafi verið skilvirkari fyrir vegna miðlægrar stjórnunnar Reiknistofu bankanna ásamt Greiðsluveitunni. Þar sem fyrirtækin tvö hafi nú þegar skapað skilvirka og notendavæna bankaþjónustu hafi ekki verið jafnmikil eftirspurn eftir fjártæknifyrirtækjum líkt og í öðrum löndum.
Þrátt fyrir tiltölulega hæga þróun á Íslandi hingað til telur Íslandsstofa að fjármálaþjónusta muni breytast töluvert með innleiðingu PSD2-laganna, neytendum og útflutningsfyrirtækjum til hagsbóta. Lögin gætu þó verið erfiður biti fyrir hefðbundna bankastarfsemi þar sem þrengt yrði að rekstri þeirra auk þess sem erfiðara yrði fyrir þá að skera sig úr í flóru fjölbreyttra fjármálafyrirtækja.