Seinfærir foreldrar sem sviptir voru forræði dóttur sinnar af Hæstarétti í janúar hyggjast kæra niðurstöðuna til Mannréttindadómstóls Evrópu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá OPUS lögmönnum, sem birt var í dag.
Samkvæmt OPUS telja foreldrarnir, sem báðir teljast seinfærir, að brotið hafi verið í bága við réttindi þeirra til friðhelgis einkalífs í nýlegum dómi Hæstaréttar þar sem þeir voru sviptir forræði dóttur sinnar. Hjá Mannréttindadómstólnum sé til staðar ítarleg dómaframkvæmd sem útlistar hver réttindi seinfærra foreldra skuli vera þegar áhyggjur eru til staðar af uppeldisaðstæðum á heimilinu.
Samkvæmt foreldrunum hafði Barnaverndarnefnd farið offari í kröfugerð gagnvart þeim og litið fram hjá réttindum þeirra og gert kröfu um sviptingu forsjár að ósekju.
Foreldrarnir telja ljóst að aðrir seinfærir foreldrar muni búa við mun lakari réttarstöðu á Íslandi miðað við í öðrum Evrópuríkjum. Þeir vona að mál þeirra verði til þess að barnaverndaryfirvöld og dómstólar breyti málsmeðferð gagnvart seinfærum foreldrum, þeim sjálfum og börnum þeirra til hagsbóta.
Flosi H. Sigurðsson hdl., einn eiganda OPUS lögmanna fer með málið fyrir hönd foreldranna hjá Mannréttindadómstóli Evrópu. Sjóður í eigu Þroskahjálpar mun styrkja mál foreldranna fyrir Mannréttindadómstólnum.