Bragi Guðbrandsson var í dag kjörinn í nefnd Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins til næstu fjögurra ára. Atkvæðagreiðslan fór fram á fundi aðildarríkja Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem haldinn var í New York í dag.
Þetta kemur fram í frétt utanríkisráðuneytisins og velferðarráðuneytisins.
Samkvæmt fréttinni fékk Bragi mjög góða kosningu eða 155 atkvæði af 195. Átján frambjóðendur sóttust eftir níu sætum í nefndinni. Bragi, ásamt fulltrúa Samóa, fékk næstflest atkvæði allra en fulltrúi Marokkó hlaut 160 atkvæði.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir við tilefnið að réttindi barna séu eitt af þeim málefnum sem Ísland talar reglulega fyrir á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og í þessari niðurstöðu felist því mikil viðurkenning á frammistöðu Íslands á þessu sviði. „Bragi Guðbrandsson er sömuleiðis vel að þessu kominn enda hefur hann menntun, sérþekkingu og áratuga reynslu, bæði á Íslandi og í alþjóðastarfi, í þeim málaflokki sem barnaréttarnefndin fæst við,“ segir hann.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra fagnar úrslitum atkvæðagreiðslunnar. Hann segist ánægður með þessa niðurstöðu. „Ísland hefur nú fengið rödd á þessum mikilvæga vettvangi þar sem talað er fyrir réttindum barna og bættri stöðu þeirra á grundvelli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Áratuga reynsla og þekking Braga Guðbrandssonar á málefnum barna og þátttaka hans í alþjóðlegu samstarfi á þessu sviði mun án efa nýtast vel í störfum barnaréttarnefndarinnar.“
Nefnd Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins hefur aðsetur í Genf í Sviss. Verkefni hennar er að fylgjast með framkvæmd samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og bókana við hann. Nefndin er skipuð átján sjálfstæðum, óháðum sérfræðingum, sem kosnir eru til fjögurra ára í senn. Aðildarríkin kjósa níu sérfræðinga í júní annað hvert ár.
Fyrr á þessu ári samþykkti ríkisstjórnin tillögu félags- og jafnréttismálaráðherra um framboð Braga í nefndina og var utanríkisráðuneytinu falið að undirbúa framboðið. Fastanefnd Íslands í New York hefur borið hitann og þungann af þeirri vinnu, segir í frétt ráðuneytanna.