Mánaðarlaun Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, hækkuðu úr tveimur milljónum í 3,2 milljónir í júní á síðasta ári, en hækkunin átti sér stað þegar ákvörðun um laun hans færðist frá Kjararáði. Þetta kemur fram í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn um laun ríkisforstjóra, en Fréttablaðið greindi fyrst frá.
Kjarninn hefur áður fjallað um launahækkun forstjórans, en þá var talið að laun hans hafi hækkað úr 1,7 milljónum í 2,5 milljónir á mánuði ef miðað er við allt árið 2017. Samkvæmt svari fjármálaráðherra er þó réttara að launin hafi hækkað úr tæpri 2,1 milljón upp í tæpar 3,3 milljónir þann 1. júlí í fyrra eftir að forstjórinn færðist undan kjararáði.
Sex forstjórar hækkuðu, einn lækkaði
Hækkun launa forstjóra Landsvirkjunar nemur því um 58 prósent, en laun annarra forstjóra ríkisfyrirtækja hækkuðu einnig umtalsvert þann 1. júlí í fyrra þegar ákvörðun um laun þeirra færðust undan kjararáði. Þar má nefna laun forstjóra Isavia sem hækkaði úr 1,7 milljónum í 2,4 milljónir, Íslandspósts sem hækkaði úr 1,4 milljónum í tæpar 1,8 milljónir, Landsbankans sem hækkaði um 2,1 milljónum í 3,3 milljónir, Orkubús Vestfjarða sem hækkuðu úr 1,77 milljónum í 1,8 milljónir og Rariks, sem hækkuðu úr 1,6 milljónum í 1,7 milljónir á mánuði. Eini forstjóri ríkisfyrirtækisins sem lækkaði í launum við brottfall kjararáðs var forstjóri Kadeco, en laun hans lækkuðu úr 1,4 milljónum í 1,2 milljónir.
Samkvæmt Fréttablaðinu segist Landsvirkjun aðeins hafa verið að efna ráðningarsamning við forstjórann, en laun forstjórans hafi lækkað verulega þegar þau voru færð undir kjararáð í febrúar 2010. Stjórnin hafi mótmælt því og lýst því yfir að hún myndi leiðrétta launakjör hans í samræmi við upphaflega ráðningarsamninginn.