Stjórn Kviku banka samþykkti á fundi sínum í dag að stefna að skráningu hlutabréfa bankans á Aðalmarkað Nasdaq Iceland á næstu 6-12 mánuðum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum á vef Kauphallarinnar.
Í tilkynningunni segir Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku, skráningu á Aðalmarkað vera áhugavert skref fyrir bankann og eðlilegt framhald eftir skráningu á First North fyrr á þessu ári. Með skráningu á Aðalmarkað verði Kvika fyrsta félagið á Íslandi sem færir sig af First North yfir á Aðalmarkað.
Kvika hefur staðið í umfangsmiklum viðskiptum undanfarin misseri, en Kjarninn greindi frá því þegar bankinn samþykkti kaup á GAMMA á 3,75 milljarða íslenskra króna fyrir tveimur vikum síðan. Sömuleiðis lækkaði VÍS hlutafé sitt í bankanum í síðustu viku og mun greiða fyrir lækkunina með því að gefa hluthöfum sínum beina eignarhlutdeild í Kviku. Með því mun eignarhlutdeild þriggja einstaklinga sem allir hafa stöðu sakbornings aukast í bankanum.