Guðbjörg Matthíasdóttir, meirihlutaeigandi Ísfélags Vestmannaeyja, greiddi sér rúmar 3,25 milljarða króna í gegnum félag sitt ÍV fjárfestingafélag ehf. Þetta kemur fram í nýjum ársreikningi ÍV fjárfestingafélags, en Fréttablaðið greindi fyrst frá málinu fyrr í dag.
Samkvæmt ársreikningi ÍV, sem á tæpan 90% hlut í Ísfélagi Vestmannaeyja, auk hlutar í HB Granda og Símanum, skilaði félagið rúmlega 630 milljóna króna hagnaði með eigið fé upp a 13,6 milljarða króna. Hagnaður félagsins árið 2016 var öllu hærri, eða um 2,59 milljarðar, en þá greiddi greiddi félagið 1,11 milljarð í arð. ÍV fjárfestingafélag er í eigu fjárfestingafélagsins Fram ehf. sem er að mestu leyti í eigu Guðbjargar.
Kjarninn hefur áður fjallað um umdeildt frumvarp um lækkun veiðigjalda, en Lilja Rafney Magnúsdóttir, fyrsti flutningsmaður frumvarpsins, sagði afkomu útgerða vera komna að þolmörkum.
Hins vegar, þrátt fyrir versnandi afkomu, er arðsemi greinarinnar góð og var hagnaður sjávarútvegsfélaga á árinu 2016 um 55 milljarðar króna. Samanlagðar arðgreiðslur sjávarútvegsfyrirtækja frá byrjun árs 2010 og út árið 2016 voru 65,8 milljarðar króna. Eigið fé þeirra frá hruni og til loka árs 2016 batnaði um 300 milljarða króna. Því hefur hagur sjávarútvegsins vænkast um 365,8 milljarða króna á örfáum árum.
Þrátt fyrir háar arðgreiðslur Guðbjargar var hún neðarlega á listanum yfir einstaklinga í sjávarútvegi og landbúnaði í síðasta Tekjublaði DV, en þar var hún með 481 þúsund í mánaðarlaun.