Borgarráð samþykkti tillögu að rammaskipulag fyrir byggð 1.200 íbúða við Skerjafjörð og Reykjavíkurflugvöll. Í tillögunni er einnig gert ráð fyrir nýjum skóla, verslun og þjónustu. Þetta kemur fram í nýrri tilkynningu Reykjavíkurborgar.
Samkvæmt tilkynningunni lýtur tillagan að byggð í Nýja Skerjafirði og afmarkast af götunni Skeljanesi til vesturs en af öryggissvæði Reykjavíkurflugvallar til norðurs og austurs. Við suðurenda byggðarinnar er síðan strandlengja Skerjafjarðar.
Rammaskipulaginu er ætlað að vera leiðarljós varðandi uppbyggingu byggðar á þróunarreit 5 í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030, en sá reitur nær yfir allan Reykjavíkurflugvöll. Þannig verði hugsað fyrir tengingu hverfisins við áframhaldandi uppbyggingu í Vatnsmýri þegar flugvöllurinn víkur þaðan.
Í tillögunni er einnig gert ráð fyrir tengingu almenningssamgangna við Kársnes í Kópavogi með byggingu brúar yfir Fossvog fyrir gangandi, hjólandi og almenningssamgöngur.