Hlutabréfaverð Icelandair hefur lækkað um 24,02% það sem af er dags í Kauphöllinni, en félagið birti tilkynningu í gærkvöldi þar sem afkomuspá þeirra fyrir 2018 var lækkuð um 30%.
Í tilkynningu sinni sagði Björgólfur Jóhannsson, forstjóri félagsins, tölurnar vera „talsverð vonbrigði.“ Verðþróun á mikilvægum áfangastöðum hafi ekki verið eins og áætlanir þeirra gerðu ráð fyrir, en það hafi sérstaklega neikvæð áhrif á rekstrarspá.
Félagið hafði gert ráð fyrir hækkun á flugfargjöldum á síðari hluta ársins, en þær hafi hingað til ekki gengið eftir þrátt fyrir um helmingshækkun á olíuverði á síðustu 12 mánuðum. Icelandair nefnir einnig að töluverðar afbókanir hafi verið hjá hópum hjá Iceland Travel vegna minnkandi samkeppnishæfni Íslands sem muni valda lakari afkomu í þeim rekstri á þessu ári
Laust fyrir hádegi hafði verið keypt fyrir 226 milljónir í félaginu í dag, en hlutabréfaverðið lækkaði um 24,02% vegna þeirra.