Brottfarir erlendra farþega frá Íslandi um Keflavíkurflugvöll í júní síðastliðnum voru tæplega 234 þúsund talsins samkvæmt talningum Ferðamálastofu og Isavia í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða um tólf þúsund fleiri en í júní á síðasta ári.
Fjölgunin nam 5,4 prósent á milli ára sem er mun minni fjölgun en hefur mælst milli ára í júní síðastliðin ár.
Bandaríkjamenn voru tveir af hverjum fimm farþegum. Þeir voru fjölmennastir í júní eða um 40 prósent af heildarfjölda og fjölgaði þeim um 29,1 prósent milli ára. Þeim hefur fjölgað úr 21 þúsundi árið 2014 í tæp 93 þúsund í ár, sem er ríflega þreföldun.
Veruleg fækkun var frá Þýskalandi, en Þjóðverjar voru næstfjölmennastir um flugvöllinn, og sama má segja um farþega frá Norðurlöndunum.
Frá áramótum hefur um ein milljón erlendra farþega farið úr landi um Keflavíkurflugvöll sem er 5,5 prósent fjölgun miðað við sama tímabil í fyrra.