Blátt bann á plastnotkun gæti haft slæm umhverfisáhrif og leitt til aukins kostnaðar meðal neytenda, vænlegra sé að stuðla að nýsköpun í plastframleiðslu og styðja við minna vistspor almennings. Þetta kemur fram í nýrri umfjöllun BBC um plastnotkun á heimsvísu, sem kom út síðasta föstudag.
Í fréttinni er talað um niðurstöður nýrrar skýrslu umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna, en samkvæmt henni hafa meira en 60 lönd kynnt lagafrumvörp sem miða að því að minnka plastpokanotkun og aðrar einnota plastvörur. Í þessum mánuði varð Vanúatú fyrsta landið til að banna einnota plastpoka, rör og matarhylki úr frauðplasti, en Kjarninn fjallaði áður um nýlegt bann á einnota plastpokum í Boston.
Vill banna plast í verslunum
Í lok mars fyrr á þessu ári sendi Guðmundur Andri Thorsson þingmaður Samfylkingarinnar frá sér þingsályktunartillögu þar sem umhverfisráðherra var hvattur til að banna plastpokanotkun í verslunum og gera innflytjendum og framleiðendum skylt að merkja vörur sem hafa í sér plastagnir.
Leiði þingsályktunartillagan til lagabreytingu myndi Ísland meðal annars feta í fótspor Bangladess, Kína, Ítalíu, Frakklands, en öll löndin hafa á einhvern hátt bannað notkun einnota plastpoka.
Samkvæmt nýlegri umfjöllun BBC er yfir þriðjungur alls matar sem seldur er í Evrópusambandinu í plastumbúðum. Árlegt framleitt plastmagn fyrir svæðið nær um 15,8 milljónum tonna, en það jafngildir um 31 kílói á hvern íbúa.
Ekki bara jákvæð áhrif
Í umfjölluninni er hins vegar einnig vikið að því hugsanlegum vandamálum sem gætu fylgt plastbanni, sé því ekki fylgt eftir með öðrum hagkvæmum leiðum til að pakka inn mat. Samkvæmt viðmælendum fréttastofunnar gæti bannið annars vegar skilað sér í hærri verði til neytenda, þar sem framleiðendur mæta auknum kostnaði vegna nýrrar umpökkunar með verðhækkun á vörum sínum. Hins vegar er möguleiki á neikvæðum umhverfisáhrifum vegna bannsins, m.a. vegna meiri eldsneytisþarfar fyrir flutninga á glerflöskum og matarsóunar vegna verri geymsluþols.
Nýjungar í plastframleiðslu
Samkvæmt BBC væri blátt bann á plastframleiðslu ef til vill ekki æskileg, en mörg fyrirtæki eru nú þegar að prófa sig áfram með framleiðslu á niðurbrjótanlegum plastumbúðum. Meðal þeirra er breski húðvöruframleiðandinn Bulldog og gosdrykkjaframleiðandinn Coca Cola. Einnig er endurunnið plast nú orðið mun ódýrara en nýtt plast vegna hækkandi heimsmarkaðsverðs á olíu síðustu missera.
Einnig bendir BBC á leiðir til að minnka vistspor fólks, til dæmis með endurnotkun á gömlum drykkjarflöskum. Slíkar aðferðir eru nú þegar til staðar í Finnlandi, Þýskalandi, Danmörku og að hluta til í Ástralíu. Samkvæmt nýrri skýrslu World Economic Forum gætu nýjar leiðir í þessum efnum sparað allt að átta milljörðum bandaríkjadala á ári hverju.