Donald Trump Bandaríkjaforseti gagnrýnir Þýskaland vegna viðskipta við Rússland og önnur bandalagsríki fyrir lág fjárframlög á leiðtogaráðstefnu Atlahafsbandalagsins í morgun. Þetta kemur fram í fréttum á vef Guardian og New York Times.
Ráðstefnan, sem hófst í dag í Brussel, er árlegur viðburður leiðtoga bandalagsþjóðanna og stendur yfir í tvo daga. Útlit er fyrir að ráðstefnan í ár verði sú umpólaðasta í 69 ára sögu bandalagsins, en samkvæmt Guardian hafa þær venjulega verið reglubundnar og fylgt fyrirfram ákveðinni dagskrá.
Á morgunverðarfundi með Jens Stoltenberg, aðalritara samtakanna, í morgun gaf Trump hins vegar til kynna að annað væri uppi á teningnum í ár, en þar gagnrýndi hann harðlega þýsku ríkisstjórnina fyrir orkuviðskipti sín við Rússland og sagði hana vera „fanga Rússa.“ Bandaríkjaforsetinn sagði það vera „mjög sorglegt“ og „óviðeigandi“ að Þýskaland stundi slík viðskipti á tímum sem við ættum að vera á varðbergi gagnvart Rússum. „Það ætti aldrei að hafa mátt gerast,“ bætir Trump við. „Þýskaland er algjörlega stjórnað af Rússlandi þar sem þeir munu fá 60-70% orku sinnar þaðan auk nýrrar leiðslu.“
„Óviðeigandi“ samband
Samband Þýskalands við Rússland var ekki eina málið sem Trump fannst „óviðeigandi,“ en forsetinn gagnrýndi einnig lítil fjárframlög Þýskalands til sambandsins miðað við Bandaríkin. Samkvæmt Trump nema árlegar greiðslur Þjóðverja til NATO rúmlega einu prósenti af landsframleiðslu þeirra, samanborið við 4,2 prósent í tilfelli Bandaríkjanna.
Í því sambandi beindi Trump sjónum sínum einnig að öðrum löndum. „Mörg lönd eru ekki að borga það sem þau ættu að borga, en í sannleika sagt skulda mörg þeirra okkur gífurlegar upphæðir til langs tíma,“ sagði Trump á fundinum í morgun, samkvæmt New York Times. „Hvað mig varðar eru þau að brjóta af sér þar sem Bandaríkin hafa þurft að borga fyrir þau.“
NATO countries must pay MORE, the United States must pay LESS. Very Unfair!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) July 10, 2018
Samkvæmt frétt Guardian frá því í gær höfðu leiðtogar ríkja Atlantshafsbandalagsins (e. NATO) haft áhyggjur af áherslum Trump á ráðstefnunni, annars vegar vegna misræmis í fjárframlögum ríkjanna og hins vegar vegna fyrirhugaðs fundar við Vladimir Putin forseta Rússlands í næstu viku. Trump hefur einnig áður lýst yfir óánægju sína á litlum fjárstuðningi NATO-ríkja, en í gær birti hann Twitter færslu þar sem einfaldlega stóð: „NATO-ríki eiga að borga MEIRA, Bandaríkin eiga að MINNA. Mjög ósanngjarnt!“ Færsluna má sjá hér að ofan.