Yfirvinnuverkfall ljósmæðra hefst á miðnætti 18. júlí að öllu óbreyttu eftir að ekki náðist saman á fundi samninganefndar ríkisins og ljósmæðra í gær.
Greint er frá því á mbl.is að ljósmæður geri kröfu um 17-18 prósenta launahækkun, en Katrín Sif Sigurgeirsdóttir formaður samninganefndar ljósmæðra segir ríkið ekki ná 12 prósentum í tilboðum sínum til stéttarinnar.
Samningar við ljósmæður hafa verið lausir frá því að gerðardómur á kjör þeirra rann út 1. september síðasta haust og segir Katrín Sif að yfirvinnuverkfallinu verði ekki afstýrt öðru vísi en með samningum.
Katrín Sif gefur lítið fyrir áhyggjur af stöðugleika vegna samninga við ljósmæður. „Sá stöðugleiki er löngu farinn með hækkununum hjá kjararáði, og ég hef enga trú á því að stöðugleikinn standi og falli með því hvernig komið er fram við okkur ljósmæður,“ segir Katrín.
Spurð nánar út í hvort það sé réttmætt að áætla að stéttir sem á eftir koma eigi eftir að fara fram á sömu hækkanir og ljósmæður koma til með að fá segist Katrín efast um að það verði raunin.
„Þegar almennir samningar losna, og hjá öðrum félögum innan BHM, er staðan ekki sambærileg við okkar. Innan BHM er ekkert félag með eins mikla vaktavinnubyrði og aðeins eitt félag er með hærri menntunarkröfu, það eru prófessorar innan BHM, og þeir eru með mun hærri laun. Næst á eftir okkur eru dýralæknar með fimm og hálfs árs nám og aðrir styttra,“ segir Katrín. „En samt erum við launalægri.“