Gengi pundsins á móti Bandaríkjadal hefur fallið um 0,6% í morgun í kjölfar ummæla Bandaríkjaforseta um að nýja Brexit-áætlun Theresu May myndi útiloka fríverslunarsamning við Bandaríkin. Frá þessu er greint á vef The Independent.
Trump lét orðin falla í viðtali við breska blaðið The Sun í gær, en viðtalið átti sér stað í miðri opinberri heimsókn Bandaríkjaforseta til Bretlands. Í viðtalinu segir Trump hafa leiðbeint May um hvernig Brexit ætti að vera framkvæmt, en að hún hafi ekki hlustað á hann.
May kynnti í gær nýjar áætlanir sínar um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, en þær miða að fríverslunarsamningi við sambandið í vöruviðskiptum. Samkvæmt Trump sýna áætlunirnar of mikla linkind og útiloka fríverslunarsamning Bretlands við Bandaríkin: „Ef þeir gera slíkan samning þyrftum við að eiga við allt Evrópusambandið í staðinn fyrir að eiga við Bretland, þannig að það myndi líklega gera út af við samninginn.“
Frá því að ummælin voru gerð opinber í gærkvöldi hefur gengi punds á móti Bandaríkjadal fallið um 0,6%, en það er mesta lækkun júlímánaðar. Gengi krónu gagnvart pundinu hefur einnig styrkst lítilllega frá opnun markaða í dag, eða um 0,23%. Á sama tíma hefur gengi Bandaríkjadals gagnvart krónu styrkst um 0,57%.