Samkaup hf. hyggst kaupa allar verslanir Iceland af félaginu Basko verslanir ehf. Samkeppniseftirlitið hefur tekið til rannsóknar samkeppnisleg áhrif samruna vegna kaupa Samkaupa á alls eignum 14 verslana af Basko verslunum. Auk Iceland verslanana eru í samrunanum fimm verslanir 10-11 og tvær Háskólabúðir.
Í tilkynningu frá eftirlitinu segir að þar sem um sé að ræða samruna á mörkuðum sem varða almenning miklu hefur Samkeppniseftirlitið ákveðið að óska opinberlega eftir sjónarmiðum almennings og fyrirtækja um áhrif samrunans á samkeppni.
„Til að gefa almenningi og öðrum hagaðilum kost á að kynna sér málið hefur Samkeppniseftirlitið birt samrunatilkynningu málsins á heimasíðu sinni,“ segir í tilkynningu frá eftirlitinu.
Þær verslanir sem Samkaup hyggst kaupa eru:
Iceland Við Engihjalla í Kópavogi
Iceland við Vesturberg í Reykjavík
Iceland við Arnarbakka í Reykjavík
Iceland í Glæsibæ í Reykjavík
Iceland við Staðarberg í Hafnarfirði
Iceland við Hafnargötu í Reykjanesbæ
Iceland í Kaupangi á Akureyri
10-11 við Hjarðarhaga í Reykjavík
10-11 í Grímsbæ í Reykjavík
10-11 við Laugalæk í Reykjavík
10-11 við Borgartún í Reykjavík
Háskólabúðin við Menntaveg í Reykjavík
Háskólabúðin við Eggertsgötu í Reykjavík
Eftir viðskiptin munu Basko verslanir áfram reka 18 verslanir undir nafninu 10-11 auk verslunarinnar Kvosarinnar, Inspired by Iceland verslunar og veitingastaðarins Bad Boy Burgers & Grill. Basko á einnig 50 prósent í félaginu Eldum rétt ehf.
Velta Samkaupa árið 2017 var 25.570 milljónir króna en velta Basko verslana var 9.528 milljónir.
Í málinu ber Samkeppniseftirlitinu að rannsaka hvort viðkomandi samruni hindri virka samkeppni með því að markaðsráðandi staða eins eða fleiri fyrirtækja verði til eða slík staða styrkist, eða að samkeppni á markaði raskist að öðru leyti með umtalsverðum hætti.
Við rannsóknina hefur Samkeppniseftirlitið m.a. til skoðunar hver staðbundin áhrif samrunans kunna að vera á svæðum þar sem keppinautum mun fækka í kjölfar samrunans. Hefur Samkeppniseftirlitið sérstaklega til skoðunar hvort þeir keppinautar sem eftir standa á tilteknum svæðum muni veita samrunaaðilum nægilegt samkeppnislegt aðhald í kjölfar samrunans. Í þessu samhengi horfir Samkeppniseftirlitið m.a. til dagvörumarkaðar á Akureyri og í Reykjanesbæ. Einnig horfir Samkeppniseftirlitið til mögulegra áhrifa á tilteknum svæðum á höfuðborgarsvæðinu.