Tap flugfélagsins WOW air nam 22 milljónum Bandaríkjadala, sem samsvarar um 2,37 milljörðum íslenskra króna. Rekstrarhagnaður félagsins fyrir skatta og afskriftir lækkaði um 42 milljónir Bandaríkjadala frá síðasta ári. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá flugfélaginu í dag.
Samkvæmt tilkynningu WOW námu tekjur félagsins um 486 milljónum Bandaríkjadala, sem er 58% aukning miðað við árið á undan. Svokölluð EBITDA félagsins, eða rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsgjöld og tekjuskatt var 4 milljónir Bandaríkjadala, samanborið við 46 milljónir Bandaríkjadala árið 2016.
Tap ársins 2017 eftir tekjuskatt var 22 milljónir Bandaríkjadala miðað við 35,5 milljónir Bandaríkjadala hagnað árið áður. Sé miðað við núverandi gengi jafngildir tap WOW 2,37 milljörðum íslenskra króna. Eiginfjárhlutfall félagsins var 10,9% í árslok.
Hærri kostnaður og meiri samkeppni
Skúli Mogensen, forstjóri og stofnandi WOW air, segir afkomuna fyrir 2017 hafa verið vonbrigði þar sem vöxtur félagsins og fjárfesting reyndust dýrari en búist var við. „Ytri aðstæður hafa reynst félaginu krefjandi, svo sem hækkandi olíuverð, styrking krónunnar, dýrt rekstrarumhverfi á Íslandi og mikil samkeppni lykilmörkuðum félagsins,“ bætir Skúli við.
Kjarninn greindi áður frá versnandi stöðu Icelandair, en flugfélagið sendi frá sér afkomuviðvörun síðasta sunnudag þar sem afkomuspá þeirra fyrir 2018 var lækkuð um 30%. Í viðvöruninni sagði Björgólfur Jóhannson, forstjóri félagsins, tölurnar einnig vera „talsverð vonbrigði“ og nefndi þar hækkun á olíuverði síðustu mánaða og enga hækkun á flugfargjöldum sem helstu ástæður verri afkomu en áður var spáð. Í kjölfarið lækkaði hlutabréfaverð félagsins um fjórðung á einum degi.
Eftir afkomuviðvörun Icelandair veltu greiningaraðilar upp stöðu WOW air, en Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, sagði þögn flugfélagsins um fjárhagsstöðu sína eina og sér vera umhugsunarverða.