Larry Fink, framkvæmdastjóri BlackRock sagði í gær fyrirtækið hafa sett saman starfshóp til að meta blockchain-tækni auk rafmynta, en bætti þó við að eftirspurn fjárfesta eftir því sé ekki gríðarleg. Frá þessu er greint á vef fréttastofu Reuters.
Samkvæmt Reuters yrðu hugsanlegar fjárfestingar BlackRock í blockchain-tækninni gríðarmikil lyftistöng fyrir hana og grundvöllur fyrir aukin viðskipti í rafmyntum, en slíkir gjaldmiðlar hafa ekki enn orðið fyrirferðamikil í fjármálaviðskiptum á heimsvísu.
Viðhorf Fink til viðskiptatækninnar hefur breyst frá síðastliðnum nóvember, en í fyrri viðtali við fréttastofuna lýsti hann fjárfestingum í gjaldmiðlinum bitcoin sérstaklega sem „spákaupmennsku“ vegna óvissu sem væri viðloðandi rafmyntina.
„Við erum lærlingar þegar kemur að blockchain,“ segir Fink í viðtali við Reuters. Hann bætir við að hann sjái ekki gríðarlega eftirspurn meðal fjárfesta í tækninni, en fyrirtækið hafi þó stofnað starfshóp til að kanna kosti hennar.
Mikill styr hefur verið um bitcoin-rafmyntina undanfarið ár, en virði hennar tók stökk á seinni hluta síðasta árs og náði hápunkti í tæpum 20 þúsund Bandaríkjadölum, miðað við gengi nálægt þúsund dölum við byrjun ársins. Virði myntarinnar hefur lækkað töluvert undanfarið og stendur nú í um 6.600 dölum.
BlackRock, sem er stærsta eignastýringarfyrirtækið í heimi, skilaði rúmleg milljarða Bandaríkjadala hagnaði á nýliðnum ársfjórðungi, sem er fjórðungshækkun frá því á sama tímabili á síðasta ári. Fyrirtækið hefur meðal annars hagnast gríðarlega á nýlegri skattalækkun á fyrirtæki í Bandaríkjunum, en skattgreiðslur BlackRock sem hluti af tekjum lækkaði úr 30 prósentum niður í 24 prósent á árinu.