Fundi Donald Trump Bandaríkjaforseta og Vladimír Pútín Rússlandsforseta í dag í Helsinki í Finnlandi er lokið. Forsetarnir ræddust við einslega í tvær klukkustundir, en áætlað var að fundurinn ætti að standa í eina og hálfa klukkustund.
Pútín var seinn á fundinn þar sem komu hans til borgarinnar seinkaði. Að loknum einkafundi þeirra kolleganna hófst fundur þeirra með embættismönnum ríkjanna tveggja.
Trump og Pútín héldu síðan blaðamannafund í forsetahöllinni að lokinni fundalotunni. Pútín sagði fundinn hafa gengið vel og verið gagnlegur. Þeir hafi rætt efnahagsmál, öryggismál og samskipti ríkjanna tveggja og hvernig mætti bæta þau. Samtal hans við Trump sé mikilvægt til að ræða mikilvæg mál, þó þeir hafi ekki náð að ræða öll mál sem þeir hefðu viljað. Þá ætla þjóðirnar tvær að stofna ráð sérfræðinga um öryggismál.
Trump sagði deilur milli ríkjanna tveggja vel þekktar. Samskipti ríkjanna hafi aldrei verið verri en fyrir fundinn, en þau hafi verið rædd með að það markmiði að bæta þau. Trump sagðist hafa rætt við Pútín um meint afskipti Rússa af forsetakosningunum í Bandaríkjunum en hann sverji af sér öll afskipti af þeim. Trump sagði einnig að rannsókn á afskiptum Rússa af kosningunum hefði verið mistök - hann hafi unnið Hillary auðveldlega.
„Við höfum tekið fyrsta skrefið að bjartari framtíð,“ sagði Trump um fundinn.