Vefsíða Túrista segir ýmsum spurningum ósvarað um stöðu WOW og Icelandair í ljósi neikvæðra afkomutilkynninga félaganna beggja í síðustu viku. Þar á meðal er spurt hvort WOW sé enn óvarið eldsneytisverðhækkunum og hversu háar upphæðir íslenskir bankar hafa lánað þeim.
Hugsanleg aðkoma Arion banka að rekstri flugfélaganna var til umræðu í fréttinni, en bankinn jók útlán sín til samgöngufyrirtækja í ferðaþjónustunni um 11 milljarða árið 2017. Ekki hafa fengist upplýsingar um hvaða fyrirtæki fengu þessi lán, en í fréttinni er spurt hvaða augum forsvarsmenn Arion líta á stöðuna ef stór hluti lánaaukningarinnar fór til flugfélaganna tveggja.
Kjarninn hefur áður greint frá stöðu flugfélaganna, en margir greiningaraðilar töldu rekstur þeirra mikilvægan fyrir íslenskt efnahagslíf. Samanlögð hlutdeild beggja félaga af farþegum til og frá landinu er um 80%, en samkvæmt Elvari Inga Möller sérfræðingi í greiningardeild Arion banka myndi samdráttur í framboði þeirra hafa kerfislæg áhrif.
Í fréttinni var því líka velt upp hvort fjárhagsstaða WOW air sé enn tryggð út árið 2019, líkt og félagið tilkynnti um miðjan nóvember í fyrra, vegna sölu á tveimur Airbus þotum. Þar að auki var spurt hvort umrædd sala hafi bætt upp enn stærra tap WOW air en kemur fram í nýbirtri rekstrarniðurstöðu sinni fyrir árið 2017.
Einnig var spurt um hvort staða flugfélaganna tveggja gagnvart rekstrarkostnaði væri enn óbreytt, en Skúli Mogensen forstjóri og eigandi WOW air sagði félagið ekki varið verðhækkunum á olíu í viðtali við Túrista í febrúar. Rúmur helmingur eldsneytiskaupa Icelandair er hins vegar varinn til tólf mánaða og ættu þeir því að vera betur í stakk búnir til að bregðast við hærra olíuverði í framtíðinni, sé kostnaðaruppbygging WOW óbreytt.