Kodak hefur hætt við áform sín um að leigja út bitcoin-námur til neytenda sinna, en framleiðandi námanna mun snúa sér að bitcoin-vinnslu á Íslandi í staðinn. Þetta kemur fram í nýrri frétt BBC.
Hætt við útrás
Síðastliðinn janúar kynnti Kodak fyrirhugaða útrás í starfsemi sinni á rafmyntamarkaðinn, annars vegar með útgáfu rafmyntar að nafni KodakCoin og hins vegar með uppsetningu rafmyntanáma til notenda sinna. Fjárfestar tóku fréttunum nokkuð vel, en í kjölfar tilkynningarinnar rauk hlutabréfaverð Kodak upp í um 120%.
Námuútleiga fyrirtækisins átti að fara fram með sérstakri vöru fyrirtækisins, KashMiner, sem Kodak kynnti á CES-tækniráðstefnunni í Las Vegas fyrr á þessu ári. KashMiner var í umsjá leyfishafa Kodak, Spotlite, en tilgangur vörunnar var að framleiða bitcoin-rafmyntina fyrir neytendur gegn um 3.400 Bandaríkjadala greiðslu.
Framkvæmdastjóri Spotlite, Halston Mikail, lýsti einnig yfir áformum fyrr í ár um að gangsetja hundruðir KashMiner-vara hjá höfuðstöðvum fyrirtækisins í New York, en samkvæmt honum voru 80 vörur nú þegar starfræktar.
Í umfjöllun BBC var verkefnið harðlega gagnrýnt þar sem ekki sást hvernig það myndi ná sínum yfirlýstu hagnaðarmarkmiðum. Kynning Spotlite gerði ráð fyrir mánaðarlegum 375 Bandaríkjadala tekjum í tvö ár fyrir leigu á tækinu, en gagnrýnendur sögðu fyrirtækið ekki hafa tekið tillit til vaxandi flækjustigs bitcoin-námavinnslu, sem skili að öllum líkindum minni hagnaði í framtíðinni.
Talsmaður Kodak lýsti því svo yfir í viðtali við BBC að einkaleyfi á KashMiner hafi aldrei verið veitt og að engar vörur hafi verið gangsettar. Í viðtali fréttastofunnar við Mikail segir hann fjármálaeftirlit Bandaríkjanna hafa komið í veg fyrir það, en fyrirtækið muni þess í stað einbeita sér á rafmyntarvinnslu á Íslandi.
Umfangsmikil framleiðsla á Íslandi
Námavinnsla rafmynta er umtalsverð á Íslandi, en samkvæmt nýlegri frétt Grapevine er talið að um það bil 10% allrar rafmyntarvinnslu heimsins fari fram hér á landi, þótt nákvæmt umfang sé ekki nákvæmlega vitað. Stærstu fyrirtækin sem sjá um myntarvinnsluna hérlendis eru að öllum líkindum Genesis Mining Iceland ehf. og Bitfury Iceland ehf., samkvæmt umfjöllun Kvennablaðsins um málið.
Vinnsla rafmynta hefur vakið athygli vegna gríðarmikillar orkuþarfar, en öll framleiðsla á bitcoin-rafmyntum er talin eyða um 30,14 Terawattsstundum á ári, en það jafngildir meiri raforku en heildarneysla Írlands.
Sömuleiðis greindi Stundin frá orkufreku gagnaveri Advania í Reykjanesbæ sem notað var til bitcoin-vinnslu, en verið notaði um eitt prósent af allri orkuframleiðslu Íslands.