Kauphöll Íslands ákvað að taka hluthafalista skráðra fyrirtækja úr birtingu án þess að hafa leitað álits Persónuverndar, en telur þó nýjan lista brjóta í bága við ný persónuverndarlög. Þetta kemur fram í frétt Fréttablaðsins í morgun.
Kjarninn fjallaði um ákvörðun Kauphallarinnar í gær um að hætta við birtingu lista yfir 20 stærstu hluthafana í skráðum félögum þar sem hún telur birtinguna í núverandi mynd ekki uppfylla skilyrði nýrra laga um persónuvernd.
í Fréttablaðinu kemur þó fram að ákvörðunin hafi verið tekin án aðkomu Persónuverndar á málinu þar sem henni hafi ekki borist erindi frá Kauphöllinni með beiðni um álit á málinu. Persónuvernd bendir þó á að birtingin þurfi að falla undir gildissvið laganna og að í því felist að hún þurfi að lúta að hlutabréfaeign einstaklinga en ekki lögaðila.
Einnig er haft eftir Páli Harðarsyni, forstjóra Kauphallarinnar, að oft sé einfalt að komast að því hverjir séu á bak við lögaðilann. Þá sé tryggast að breyta lögunum ef ætlunin er að heimila algjöra birtingu á hluthafalistum.